Hljóð- og myndver í SÍMEY

Hrafnhildur Guðjónsdóttir flytur hér erindi úr hljóð- og myndveri SÍMEY í gegnum vefinn um Barnasátt…
Hrafnhildur Guðjónsdóttir flytur hér erindi úr hljóð- og myndveri SÍMEY í gegnum vefinn um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna fyrir starfsmenn grunnskóla Akureyrarbæjar.

„Þetta er góð viðbót í okkar starfi og mun nýtast okkur mjög vel,“ segir Kjartan Sigurðsson, verkefnastjóri hjá SÍMEY, um hljóð- og myndver sem hefur verið komið upp í húsnæði SÍMEY við Þórsstíg.

Tækjabúnaðinum var komið upp í mynd- og hljóðverinu í maí sl. og nú þegar er farið að nota hann. Kjartan segir þessa aðstöðu vera kærkomna og hún nýtist á ýmsan hátt, t.d. sem upptökuver fyrir kennsluefni fyrir vefnámskeið og einnig sé hægt að senda út fyrirlestra beint úr verinu í gegnum vefinn. Í dag var Hrafnhildur Guðjónsdóttir, verkefnastjóri hjá Akureyrarbæ, með fyrirlestra um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna úr hljóð- og myndverinu í SÍMEY fyrir starfsmenn í nokkrum grunnskólum Akureyrar og þá voru þessar myndir teknar. Henni til aðstoðar við útsendinguna var Ingunn Helga Bjarnadóttir,  verkefnastjóri í SÍMEY. Starfsmenn grunnskólanna fylgdust með fyrirlestrum Hrafnhildar úr sínum skólum. Á morgum, föstudag, heldur Hrafnhildur áfram að ræða um Barnasáttmála SÞ fyrir starfsmenn annarra grunnskóla í bænum. Með þessu móti nýtist tæknin afar vel til þess að ná til margra starfsmanna Akureyrarbæjar á einu bretti.

Eins og fram hefur komið hefur verið vöxtur í vefnámskeiðum og er óhætt að segja að heimsfaraldur Covid 19 hafi hraðað þeirri þróun. Kjartan Sigurðsson segir að í þessu ljósi sé mikilvægt að hafa möguleika á því að taka upp kennsluefni og senda út erindi beint á vefnum úr þessu nýja upptökuveri. Það opni á ótal marga möguleika við miðlun upplýsinga og kennsluefnis á veraldarvefnum, auk þess sem SÍMEY muni nýta sér það til að gera markaðs- og kynningarefni. Hér má sjá dæmi um slíkt kynningarmyndband sem Kjartan vann um námsframboð SÍMEY núna á haustönn.

„Nú til dags er mikilvægt að geta farið margar og mismunandi leiðir í því að miðla upplýsingum til fólks. Tæknin er til staðar og með því að koma upp þessu hljóð- og myndveri upp viljum við nýta okkur hana á ýmsan hátt og við sjáum fyrir okkur að það muni nýtast fyrirtækjum og stofnunum vel við símenntun sinna starfsmanna,“ segir Kjartan Sigurðsson.