Grænfáninn - umhverfis- og lýðheilsumál í öndvegi í Stórutjarnaskóla

Allt skólaárið, einu sinni í viku eftir hádegið, er útiskóli yngstu nemenda í grunnskólanum og elstu…
Allt skólaárið, einu sinni í viku eftir hádegið, er útiskóli yngstu nemenda í grunnskólanum og elstu nemenda í leikskólanum í Stórutjarnaskóla þar sem unnin eru ýmis verkefni sem tengjast náttúrunni á einn eða annan hátt.

Stjórutjarnaskóli í Ljósavatnsskarði hefur verið grænfánaskóli frá árinu 2009. Í þessu felst að skólinn horfir á umhverfismál sem mikilvægan hluta af skólastarfinu.

Græfánaverkefnið er alþjóðlegt umhverfismenntaverkefni sem hefur lengi verið við lýði út um allan heim á forræði samtakanna Foundation for Environmental Education. Hér á landi hefur þetta umhverfisverkefni verið síðan 2001 og hefur Landvernd yfirumsjón með því. Skólar á öllum stigum taka þátt í verkefninu – leik-, grunn-, framhalds- og háskólar.

En í hverju felst Grænfáninn? Í stórum dráttum hefur hann það að markmiði að styðja við sjálfbærni og hvetja skólana til þess að flétta umhverfismál inn í skólastarfið á ýmsan hátt. Skólar um allt land taka þátt í verkefninu en fjarri því allir. Grænfáninn rímar vel við áherslur LOFTUM umhverfis- og loftlagsverkefnisins á Norðausturlandi.

Í grænfánaverkefninu síðan 2009

„Hér í Stórutjarnaskóla var árið 2008 farið að leggja drög að þátttöku í grænfánaverkefninu og í janúar 2009 var skólinn kominn á græna grein en sjálfan Grænfánann fékk skólinn fyrst afhentan árið 2011 og núna erum við að sækja um okkar sjötta Grænfána.
Til þess að komast á græna grein, eins og það er kallað, er farið í gegnum sjö skref. Fyrst er sett á stofn umhverfisnefnd í skólanum og síðan er farið í gegnum hvert skrefið á fætur öðru þar til takmarkinu er náð. Á hverju skólaári kemur það í hlut eins af kennurunum að stýra verkefninu en síðan er skipuð umhverfisnefnd sem í eiga sæti bæði fulltrúar nemenda og starfsfólks. Raunar köllum við nefndina umhverfis- og lýðheilsunefnd því Stórutjarnaskóli er líka heilsueflandi skóli og því samþættum við þessa málaflokka. Nefndin fundar reglulega, stundum með nemendum og stundum með bæði nemendum og starfsfólki þar sem farið er yfir þau mál sem hæst bera og við erum að vinna að. Stundum fáum við til liðs við okkur fulltrúa foreldra og einstaka sinnum fulltrúa frá sveitarfélaginu okkar, Þingeyjarsveit,“ segir Birna Davíðsdóttir, skólastjóri Stórutjarnaskóla.

Stórutjarnskóli er samrekinn leik-, grunn- og tónlistaskóli. Í vetur eru 30 nemendur í grunnskóladeildinni og 11 í leikskóladeildinni. Tónlistarnámið stunda 29 nemendur. Upptökusvæði skólans er víðfeðmt: Bárðardalur, Kinn, Ljósavatnsskarð og Fnjóskadalur. Nemendur koma að morgni dags í skólann með skólabílum og hefst kennsla í grunnskólanum kl. 08:30. Hringt er út úr síðustu kennslustund kl. 15:20 og þá halda nemendur aftur heim á leið í skólabílunum.

Útiskóli einu sinni í viku

Það má orða það svo að umhverfismálin séu á einn eða annan hátt fléttuð inn í nám nemenda í Stórutjarnaskóla. Á yngra stiginu, nemendur frá 1. til 4. bekkjar, er útiskóli eftir hádegið einu sinni í viku þar sem unnin eru ýmis verkefni sem tengjast náttúrunni. Verkefnin hafa samsvörun við ólíkar námsgreinar eins og náttúrufræði, samfélagsfræði, heimilisfræði, smíðar og myndlist. Í útiskólanum eru einnig elstu nemendur leikskóladeildarinnar.

Tvisvar á dag eru 20 mínútna frímínútur og þeim verja nemendur úti, nema veður hamli. Útifrímínúturnar eru nýttar til leikja og samveru en ekki til þess að kíkja í símann enda er símanotkun einfaldlega ekki heimiluð á skólatíma. Í byrjun þessa skólaárs var ákveðið að nemendur myndu leggja síma sína til hliðar við upphaf skóladags og þannig er það þar til nemendur fara heim úr skólanum síðdegis. Birnu skólastjóra telur að vel hafi til tekist og finnst símaleysið hafa eflt félagsanda nemenda og hreyfingu – og þar með sé símaleysið lýðheilsumál.

Umhverfisþing í Stórutjarnaskóla 24. apríl nk.

Liður í grænfánaverkefni Stórutjarnaskóla er umhverfis- og lýðheilsuþing sem hefur verið haldið árlega að einu kóvidárinu frátöldu. Þingið í ár verður síðasta vetrardag, 24. apríl, og til þess er öllum áhugasömum boðið.

„Umhverfis- og lýðheilsuþingið er eitt af skrefunum sjö í grænfánaverkefninu, að miðla út í samfélagið því sem við erum að gera í umhverfismálum og fjalla um þau frá ýmsum sjónarhornum. Til þingsins bjóðum við öllum sem vilja koma.  Fyrsta þingið var haldið hér árið 2010 og þingið í ár verður það fjórtánda. Við fáum til okkar fyrirlesara frá fyrirtækjum, stofnunum og félagasamtökum til þess að fjalla um ýmislegt í umhverfismálunum og einnig gefst nemendum tækifæri til að kynna hvað þeir eru að gera á þessu sviði í skólanum. Stundum hafa nemendur kynnt niðurstöður kannana sem þeir hafa gert í umhverfis- og lýðheilsumálum, t.d. varðandi svefnvenjur, skjánotkun og matarsóun,“ segir Birna.

Að sjálfu leiðir eru nemendur Stórutjarnaskóla, sem búa úti í hinum dreifðu byggðum, í náinni snertingu við náttúruna. Hjarta þeirra slær með náttúrunni og hún er alltumlykjandi á degi hverjum. Birna segir ekki nokkurn vafa á því að grænfánaverkefnið strái fræjum og nemendur alist upp við og tileinki sér ákveðna umhverfisvitund. Með þessu verkefni sé undirstrikað að maðurinn sé hluti af náttúrunni og vilji vinna með henni en ekki á móti.

Samvinna er lykilhugtakið

„Samvinna er það sem mér finnst við fyrst og fremst taka út úr þátttöku í grænfánaverkefninu. Við vinnum saman að umhverfisverkefnum, þvert á námshópa og kennarateymi. Þetta er mikilægt og jákvætt fyrir jörðina og okkur líður öllum vel með að hugsa um náttúruna og koma fram við hana af virðingu. Það er mín skoðun að það þyrftu allir skólar að taka þátt í og tileinka sér hugsun Grænfánans. Í rauninni má segja að þessi umhverfishugsun sé í aðalnámskrá grunnskóla en Grænfáninn er gott verkfæri til þess að virkja hana, segir Birna.

Eftir þessum áherslum Stórutjarnaskóla í umhverfismálum hefur verið tekið. Árið 2012 fékk skólinn umhverfisverðlaun Umhverfisráðuneytisins Varðliðar umhverfisins og á sl. ári fékk hann umhverfisverðlaun Þingeyjarsveitar. Birna skólastjóri segir ánægjulegt að eftir þessu sé tekið og þetta sé ekki síst mikilvæg viðurkenning fyrir nemendur skólans og vinnu þeirra.

Landshlutafundur Landverndar í Stórutjarnaskóla 22.-23. apríl

Við þetta er svo því að bæta að Landvernd verður með svokallaðan landshlutafund í Stórutjarnaskóla dagana 22. og 23. apríl nk. Grænfáninn boðar til þessara funda u.þ.b. annað hvert ár. Fundirnir eru haldnir í fimm landshlutum og þá einn á Norðurlandi. Markmiðið er að verkefnastjórar/kennarar í grænfánaskólum í landshlutunum hittist, fræðist, læri hver af öðrum og fái innblástur. Nýtt námsefni er kynnt, auk fræðslu um menntun til sjálfbærni, útikennslu o.fl. Þá segja fulltrúar grænfánaskóla frá verkefnum sem þeir vinna. Boðið verður til fundarins fulltrúum skóla af svæðinu sem eru ekki grænfánaskólar til að fræðast um verkefnið.