Góður andi í Stökkpalli

Sex af sjö þátttakendum sem brautskráðust úr Stökkpalli. Með þeim á myndinni eru Sandra Sif Ragnarsd…
Sex af sjö þátttakendum sem brautskráðust úr Stökkpalli. Með þeim á myndinni eru Sandra Sif Ragnarsdóttir og Sólveig Helgadóttir, sem höfðu umsjón með náminu.

Í apríl lauk í SÍMEY 180 kennslustunda námsleið sem ber yfirskriftina Stökkpallur. Námið, sem var sett upp í samstarfi við Vinnumálastofnun, er samkvæmt vottaðri námskrá Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og ætlað þeim sem hafa horfið frá námi og/eða eru án atvinnu. Tilgangur með Stökkpalli er að virkja fólk til þátttöku í atvinnulífinu eða til áframhaldandi náms.

Tólf manns hófu námið 18. febrúar en sjö luku því síðasta vetrardag, 21. apríl sl. Atvinnuleit nokkurra þátttakenda bar árangur á meðan á náminu stóð og fóru þeir því út á vinnumarkaðinn. Umsjón með Stökkpalli höfðu Sandra Sif Ragnarsdóttir, náms- og starfsráðgjafi og verkefnastjóri hjá SÍMEY, og Sólveig Helgadóttir, markþjálfi.

Sandra Sif segir að námið hafi gengið vel, hópurinn hafi náð mjög vel saman og andinn verið góður, sem skipti miklu máli. Kennt var alla virka daga frá kl. 9 til 12 og var mætingin yfirleitt mjög góð. Sandra segir að þátttakendur hafi verið mjög ánægðir með það fyrirkomulag að kenna á morgnana, það hafi skipt miklu máli upp á hina daglegu virkni.

„Stökkpallur gengur út á t.d. markmiðasetningu, þjálfun í samskiptum og tjáningu, sjálfsskoðun og sjálfseflingu, að afla upplýsinga, fjármálalæsi og almennt að efla sjálfstraust fólks. Við fórum einnig í heilsu og lífsstíl, gerð ferilskrár og kynningarbréfs og ræddum um hvað beri að hafa í huga þegar fólk fer í atvinnuviðtöl,“ segir Sandra Sif.

Í eðlilegu árferði eru þátttakendur í Stökkpalli hluta af námstímanum í starfsnámi á vinnustöðum en vegna Covid faraldursins var það ekki mögulegt nú. Þess í stað var farið í nokkrar stuttar vinnustaðaheimsóknir og komu þær til viðbótar við fyrirlestra og verkefnavinnu í húsakynnum SÍMEY.

„Það sem mér finnst skipta mestu máli er að námið hjálpaði þátttakendum til þess að finna sína styrkleika og hvar áhugi þeirra liggur. Það er mikilvægt varðandi framhaldið, bæði hjá þeim sem horfa til þess að fara aftur í nám og einnig fyrir þá sem eru að leita sér að vinnu. Mér fannst mjög ánægjulegt að þátttakendur voru við námslok almennt komnir með nokkuð skýra sýn á hvert þeir vildu stefna,“ segir Sandra Sif.

Einn þátttakenda í náminu hafði þessi orð um það:

Mín upplifun af Stökkpalli var æðisleg. Ég lærði mikið um sjálfa mig og áttaði mig á því hvað mig langar að gera í framtíðinni. Þetta var einn af betri námshópum sem ég hef verið í og bestu kennararnir. Í dag stefni ég að því að fara í fjarnám í leikskólaliða og vonast til að geta farið að vinna á leikskóla.