Góður grunnur fyrir allan rekstur

Nemendur og Sigurður Steingrímsson kennari fylgjast með kynningum á lokaverkefnum/viðskiptaáætlunum …
Nemendur og Sigurður Steingrímsson kennari fylgjast með kynningum á lokaverkefnum/viðskiptaáætlunum sl. miðvikudag. Þetta var punkturinn yfir i-ið í yfirgripsmiklu námi í SÍMEY í sölu-, rekstrar- og markaðsfræðum í vetur. Þetta nám verður aftur í boði næsta haust.

Í næstu viku útskrifast níu nemendur úr sölu- rekstrar- og markaðsnámi í SÍMEY. Þetta er tveggja anna nám sem hófst sl. haust og er þessa dagana að ljúka. Þráðurinn verður aftur tekinn upp í haust og þá býður SÍMEY upp á samskonar nám sem verður bæði á haust- og vorönn. Þetta nám nýtist afar vel fólki sem er í rekstri eða hyggur á stofnun fyrirtækja og vantar grunnþekkingu til þess að hefja reksturinn.

Viðamikið nám
Að vonum er víða borið niður í náminu og má segja að leiðarljósið sé að það sé hagnýtt fyrir þá sem það stunda. Upplýsingatækni kemur við sögu, gerð og framsetning kynningarefnis, gerð viðskiptaáætlana og verslunarreikningur, almenn markaðsfræði, samningatækni, verkefnastjórnun, markaðsrannsóknir, frumkvöðlafræði, sölutækni, vinnustaðafræði og svo mætti lengi áfram telja. Í heildina er námið um 270 klukkustundir eða sem svarar til tæplega sjö vinnuvikna. Kennt hefur verið tvo daga í viku, fjórar stundir í senn, og verður sama fyrirkomulag á náminu næsta vetur.

Sigurður Steingrímsson, verkefnastjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands á Akureyri, kennir hluta af sölu- rekstrar- og markaðsnáminu, m.a. gerð viðskiptaáætlana. „Nemendur vinna sínar viðskiptaáætlanir alveg eins og þeir væru að fara að hefja rekstur. Í því felst að afla eins raunhæfra upplýsinga og mögulegt er áður en farið er af stað með rekstur fyrirtækis. Þetta á t.d. við um markhópa, samkeppnisstöðu, fjármögnun, kynningarmál o.fl. Þegar myndin fer að skýrast setja nemendur ákveðnar fjárhagslegar stærðir inn í reiknilíkan sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands býður upp á. Reiknilíkanið hjálpar fólki að sjá hvernig útkoman verður að gefnum ákveðnum forsendum,“ segir Sigurður og bætir við: „Að mínu mati er hér um að ræða viðamikið og afar gagnlegt nám, hvort sem er fyrir fólk sem á einn eða annan hátt tengist rekstri eða hyggur á rekstur.“

Kynningar nemenda á verkefnum sínum/viðskiptaáætlum
Síðastliðinn miðvikudag var punkturinn settur yfir i-ið hjá nemendunum níu sem hafa stundað sölu- rekstrar- og markaðsnám í vetur. Þá kynntu þeir viðskiptaáætlanir fyrir ýmis fyrirtæki sem annað hvort eru þegar komin í rekstur eða hugmyndin er að hefji rekstur áður en langt um líður. Eins og vænta mátti eru verkefnin fjölbreytt og áhugaverð, þar má t.d. nefna Airbnb gistiþjónustu, viðgerðaþjónustu á tölvum og farsímum, verslunarrekstur, framleiðslu og sölu á hönnunarvörum o.fl.

„Hefur gagnast mér að öllu leyti“
„Þetta nám hefur gagnast mér að öllu leyti. Það hefur verið farið vel í fjölmargar hliðar reksturs, gerð rekstraráætlana, sölu og markaðssetningu,“ segir Stefán Marel Hafþórsson  sölumaður í Tölvuteki á Akureyri en hann kynnti hugmynd sína um viðgerðarþjónustu á tölvum (þ.m.t. spjaldtölvum) og farsímum – undir vinnuheitinu Tæknisetrið. „Námið er mjög góður grunnur fyrir alls kyns reksturs og það hefur verið mjög gott að geta einnig fengið stuðning og ráðgjöf frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Ég er mjög sáttur við að hafa farið í þetta nám, það hefur hjálpað mér mikið til þess að þróa áfram þetta hugarfóstur sem ég hef verið með lengi,“ segir Stefán Marel en hann hefur starfað sem sölu- og viðgerðamaður á tölvubúnaði síðan 2011. „Ég hef áhuga á að starfa sjálfstætt en það er samt ekki alveg komið að því, ég á eftir að ljúka ýmsu áður en ég tek skrefið. Einn af þeim þáttum sem ég hef áhuga á að styrkja mig í er bókhald og ég horfi til þess að taka slíkt nám hér í SÍMEY,“ segir Stefán.

Agndofa útvíkkar starfsemina
Sigrún Björg Aradóttir er grafískur hönnuður að mennt og hefur starfað sem slíkur á Akureyri síðustu tvö ár, núna er starfsemi Agndofa ehf. í Listagilinu, þar sem heitir Gilið vinnustofur.

Sigrún Björg hefur verið í sölu-, rekstrar- og markaðsnáminu í vetur bæði til þess að styrkja sig í rekstri síns eigin fyrirtækis og ekki síður til þess að afla sér frekari þekkingar til þess að víkka út starfsemi fyrirtækisins Agndofa hönnunarhúss, sem hún á og rekur. Þessir landvinningar í rekstrinum felast í laserskurðarþjónustu, Sigrún Björg hyggst framleiða hönnunarvörur, sem hún sjálf hannar að sjálfsögðu, fyrir fagurkera, eins og hún orðar það. Vörurnar eru skornar í m.a. plexígler og við. „Ég fór í brautargengisnám hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og gerði þá fyrstu viðskiptaáætlunina fyrir Agndofa þegar ég hóf minn rekstur. En mér fannst vanta að kafa dýpra ofan í þessa þætti og því var rökrétt framhald að fara í þetta nám hér í SÍMEY. Nú þegar á ég skurðarvél ásamt föður mínum en hugmyndin er að kaupa stærri og betri skurðarvél og víkka út þjónustuna, hanna og framleiða vörur sem ég sker í laserskurðarvél. Slík þjónusta er ekki fyrir hendi á Akureyri, hér er vissulega FabLab smiðja en hún er ekki hugsuð til þess að fjöldaframleiða vörur,“ segir Sigrún Björg.
„Það sem ég fyrst og fremst tek út úr þessu námi er þekking á því hvernig á að reka fyrirtæki og hvað skiptir máli í því sambandi. Með þetta nám í farteskinu tel ég mig vera öruggari með mína starfsemi, nú veit ég hvað ég þarf að gera til þess að hlutirnir gangi upp,“ segir Sigrún Björg Aradóttir.