Glíman við latneska stafrófið

Fyrir fólk sem kemur frá fjarlægum löndum þar sem er notast við gjörólíkt stafróf getur glíman við l…
Fyrir fólk sem kemur frá fjarlægum löndum þar sem er notast við gjörólíkt stafróf getur glíman við latneska stafrófið verið strembin. En það er með þetta eins og annað; ef grunnurinn er ekki til staðar er erfitt að byggja ofan á hann.

Fyrir útlendinga reynist íslenskan almennt erfitt tungumál að læra. Og þegar við bætist að margir sem sækja námskeið í íslensku sem annað tungumál koma úr gjörólíkum mál- og menningarheimum vandast málið því þá þarf fólk að tileinka sér nýtt stafróf, hið latneska, frá grunni.

Mikilvægur þáttur í starfi SÍMEY og annarra símenntunarstöðva eru námskeið í íslensku sem annað tungumál. SÍMEY býður upp á íslenskunámskeið á fimm stigum þar sem grunnnámskeiðið er á fyrsta stigi og síðan koll af kolli. Sem endranær er mikil aðsókn að þessum námskeiðum, í það heila er um eitthundrað manns á íslenskunámskeiðum SÍMEY núna á haustönn og eru þau kennd á Akureyri og við utanverðan Eyjafjörð. Þessi fjöldi segir sitt um þá miklu þörf sem er fyrir slík námskeið.

Sólveig Jónsdóttir er ein þeirra sem kennir íslensku sem annað mál. Hún hefur kennt á þessum námskeiðum hjá SÍMEY til fjölda ára og aflað sér mikillar reynslu og þekkingar á þessu sviði. Eitt af þeim íslenskunámskeiðum sem hún kennir á þessari önn er kallað Skref til sjálfshjálpar og er í raun einstaklingsmiðað íslenskunám þar sem hámarksfjöldi þátttakenda er fimm. Þannig segir Sólveig að unnt sé að vinna markvisst með hverjum og einum.

Á þessu námskeiði núna á haustönn kennir Sólveig fimm manns sem koma frá fjarlægum löndum í Afríku og Asíu þar sem stafrófið er gjörólíkt hinu latneska, sem notað er hér á Vesturlöndum. Verkefni þátttakenda er því að læra nýtt stafróf frá grunni, tengja stafina saman og lesa. Sólveig segir að nokkrir af þeim sem hafa setið slík námskeið hjá sér hafi áður farið á venjuleg íslenskunámskeið en lent harkalega á vegg, einfaldlega vegna þess að grunnurinn, þ.e. þekking á hinu latneska stafrófi hafi ekki veið til staðar. Fyrir fólk í þessari stöðu þurfi einstaklingskennslu, grunnurinn þurfi að vera til staðar til þess að unnt sé að byggja ofan á hann. „Og það hefur komið fyrir að fólk sem kemur á þessi námskeið hefur ekki verið fært um að lesa á sínu móðurmáli, það hefur einfaldlega aldrei haft tækifæri til þess að fara í skóla. Fyrir það fólk er að sjálfsögðu enn flóknara og erfiðara að læra gjörólíkt og nýtt tungumál eins og íslensku. Kennslan á þessum námskeiðum felst því í að kenna grundvallartæknina í lestri og skrift. Ég kenni fólki að þekkja stafina, hljóðin og tengingar, í raun eru þetta í grunninn sömu aðferðir og þegar börnum er kennt að læra að lesa. Ég nota sóknarskrift þegar fólk er aðeins byrjað að lesa og einnig kenni ég því að lesa hundrað algengustu orðin í íslensku sem í það heila er drjúgur helmingur orða í íslensku skrifmáli,“ segir Sólveig.

Umrætt lestrarnámskeið er fjörutíu klukkustunda langt og segir Sólveig að eitt námskeið dugi fólki ekki til þess að geta lesið texta en það hjálpi því að komast af stað og auðveldi því að sitja íslenskunámskeið, sem eins og áður segir eru frá fyrsta til fimmta stigs. Margir þeirra sem þekki ekki latneska stafrófið hafi verið hér á landi í töluverðan tíma og skilji og geti talað íslensku að einhverju marki en skrifmálið sé hins vegar allt annar handleggur. Þegar fólk hvorki geti lesið né skrifað á íslensku þurfi það að takast á við erfiðar hindranir í íslensku samfélagi og verkefnið sé að hjálpa því yfir þessar hindranir til sjálfshjálpar.