Í vetur hefur SÍMEY í auknum mæli lagt áherslu á hugmyndafræðina Gefum íslensku séns, sem Ólafur Guðsteinn Kristjánsson, verkefnastjóri íslenskunáms við Háskólasetur Vestfjarða, er upphafsmaðurinn að. Grunnstefið í Gefum íslensku séns er að hvetja Íslendinga til að tala íslensku við fólk af erlendum uppruna en skipta ekki strax yfir í ensku. Einnig felst í verkefninu að fólk af erlendum uppruna, sem til dæmis vinnur þjónustustörf á Íslandi, til lengri eða skemmri tíma, hafi í störfum sínum möguleika á að læra og/eða tileinka sér einföld hugtök eða setningar á íslensku. Þannig er lögð áhersla á að samfélagið allt sé framlenging á kennslustofunni og tryggt að einhverju leyti að þeir sem vilja læra íslensku geti með öruggum hætti æft sig, t.d. með því að panta sér mat, kaffi eða annað á veitingastöðum og kaffihúsum landsins.
Kristín Björk Gunnarsdóttir, verkefnastjóri hjá SÍMEY, fer ekki leynt með þá skoðun að þessa hugmyndafræði þurfi að kynna sem víðast í því skyni að efla íslenskukunnáttu fólks af erlendum uppruna og tryggja að það hafi tök á að þjálfa sig í að nota tungumálið á einfaldan og hagnýtan hátt. „Við höfum líka fengið upplýsingar um það frá Ólafi frumkvöðli Gefum íslensku séns hvernig þetta hefur verið unnið með ferðaþjónustufyrirtækjum á Vestfjörðum. Þetta þarf að vera einfalt og hugsað út frá hinum erlenda starfsmanni sem starfar hér í framlínunni, ef svo má segja, í viðkomandi ferðaþjónustufyrirtæki,“ segir Kristín Björk. Undir þessum formerkjum hyggjast Kristín og Sigurlaug Indriðadóttir Unnardóttir, verkefnastjóri í SÍMEY, á næstu vikum sækja heim fyrirtæki í ferðaþjónustu, bæði veitinga- og gististaði, á Eyjafjarðarsvæðinu til þess að kynna hugmyndafræðina og bjóða upp á samtal um leiðir til að vinna saman.
„Snemma í vor ákváðum við að fara í samstarf með gisti- og veitingafyrirtækinu Lamb-Inn í Eyjafjarðarsveit en þar starfar erlent starfsfólk sem hefur áhuga á að bæta sig í íslensku. Við fórum yfir það með því hvaða hugtök og/eða setningar á íslensku það teldi mikilvægast að hafa á takteinum. Út frá þeim upplýsingum, módelinu að vestan og okkar vitneskju höfum við tekið saman lista hugtaka í ferðaþjónustu og búið til einföld samtöl á íslensku sem við teljum að komi bæði starfsfólki og gestum þeirra að gagni. Þessi listi verður opinn öllum og aðgengilegur í gegnum QR-kóða sem við vonumst til að fyrirtæki í veitinga- og gistiþjónustu verði tilbúin að hafa sýnilega undir merkjum Gefum íslensku séns, fyrir bæði starfsmenn sína og erlenda gesti, því við vitum að íslenskan vekur forvitni þeirra. Við teljum að þetta sé kjörin leið til þess að koma á framfæri einföldum upplýsingum um tungumálið til okkar gesta og þannig erum við að slá tvær flugur í einu höggi, annars vegar að miðla hagnýtum hugtökum og setningum á íslensku til erlends starfsfólks í ferðaþjónustu og hins vegar að vekja forvitni gesta okkar á tungumálinu. QR-kóðinn gefur færi á að stækka gagnasafnið smám saman eftir því sem safnast í sarpinn. Ég sé þetta fyrir mér sem samvinnuverkefni okkar og ferðaþjónustufyrirtækja í Eyjafirði til að byrja með og ég bind vonir við að verkefnið muni í framhaldinu ná frekari útbreiðslu,“ segir Kristín Björk.
Kristín Björk (kristin@simey.is) og Sigurlaug (silla@simey.is) taka því fagnandi ef ferðaþjónustufyrirtæki á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu óska eftir því að fá þær í heimsókn til að kynna þetta verkefni nánar og hvetja þau endilega til að vera í sambandi.