Fyrsta námskeiðið í LOFTUM – umhverfis- og loftlagsverkefninu

Þáttakendur í Grænum leiðtogum - fyrsta námskeiðinu í LOFTUM verkefninu sem var haldið 22. september…
Þáttakendur í Grænum leiðtogum - fyrsta námskeiðinu í LOFTUM verkefninu sem var haldið 22. september sl. í SÍMEY.

Síðastliðinn föstudag, 22. september, var haldið í SÍMEY námskeiðið Grænir leiðtogar sem er fyrsti hluti fræðslu í LOFTUM umhverfis- og loftlagsverkefninu sem SÍMEY og Þekkingarnet Þingeyinga hafa unnið að frá því á síðasta ári. LOFTUM er áhersluverkefni innan SSNE – samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra og hefur í tvígang verið styrkt af Sóknaráætlun Norðurlands eystra. Af hálfu SÍMEY vinna að verkefninu Ingunn Helga Bjarnadóttir og Kristín Björk Gunnarsdóttir en af hálfu Þekkingarnets Þingeyinga hefur Helena Eydís Ingólfsdóttir komið að því á fyrri stigum en Hilmar Valur Gunnarsson vinnur nú að verkefninu.

Á síðasta ári var settur á stofn stýrihópur til þess að vinna að LOFTUM verkefninu og í honum voru Andri Teitsson bæjarfulltrúi og formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar, Haukur Hauksson samskiptastjóri Veðurstofunnar, Helga Ösp Jónsdóttir sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, Jóna Björg Hlöðversdóttir sveitarstjórnarkona í Þingeyjarsveit, Smári Jónas Lúðvíksson verkefnastjóri umhverfismála SSNE og Þuríður Helga Kristjánsdóttir stjórnarkona í Landvernd. 

Stýrihópurinn vann fræðslugreiningu sem var send til starfsfólks sveitarfélaganna og kjörinna fulltrúa í landshlutanum og könnuð fræðsluþörf í málaflokknum. Fræðslugreiningin tók til loftslags- og umhverfismála og ýmissa afmarkaðra þátta í málaflokknum, t.d. skipulags-, orku- og sorpmála, veitna, loftgæða, frárennslis o.fl. Áfram var unnið að fræðslugreiningunni á fyrri hluta þessa árs og m.a. tekin nokkur rýnihópaviðtöl. Nú liggur fyrir áætlun um hvernig fræðslu í umhverfis- og loftlagsmálum til starfsmanna sveitarfélaga og kjörinna fulltrúa á Norðurlandi eystra verður háttað núna á haustönn og til ársins 2025.

Ekki þarf að hafa um það mörg orð að umhverfis- og loftlagsmál vaxa að umfangi ár frá ári. Um margt er þetta flókinn málaflokkur enda tekur hann til okkar umhverfis og daglegs lífs á einn eða annan hátt. Fyrir starfsfólk sveitarfélaga og kjörna fulltrúa getur verið flókið og vandkvæðum bundið að setja sig vel inn í þennan málaflokk og ná utan um alla anga hans. Einmitt þess vegna var LOFTUM verkefnið sett af stað.

Eftir því sem næst verður komist hefur sambærilegt verkefni ekki verið unnið víðar á landinu og því mun sú vitneskja og fróðleikur sem safnast á einn stað í verkefninu augljóslega nýtast öðrum í framhaldinu.

Hugtökin sem LOFTUM tekur til eru óteljandi mörg. Nefna má hringrásarhagkerfið, loftlagsmál, orku, náttúruvernd, úrgangsmál, veitur, mengunarvarnir, kolefnisjöfnun, vistvænan ferðamáta, kolefnisspor, kolefnisbókhald, loftlagsvá, gróðurhúsalofttegundir, matarsóun – og svo mætti lengi telja.

Sem fyrr segir var fyrsta námskeiðið í LOFTUM verkefninu – Grænir leiðtogar - haldið í húsakynnum SÍMEY föstudaginn 22. september sl. Námskeiðið var sett upp fyrir starfsfólk sveitarfélaga á Norðurlandi eystra sem tekur þátt í verkefni SSNE um Græn skref og  var leiðbeinandi dr. Snjólaug Ólafsdóttir, sviðsstjóri sjálfbærni hjá EY Ísland.

Í framhaldinu verða fjölbreytt staðnámskeið, kynningar og netnámskeið og byggður verður upp rafrænn skóli þar sem fólk getur sótt sér fræðslu þegar því hentar. Sú fræðsla sem verður boðið upp á tekur mið af þeirri fræðslugreiningu sem hefur verið unnin. Áhersla verður á stutta og hnitmiðaða framsetningu fræðsluefnis og að oft og tíðum flókin úrlausnarefni í þessum málaflokki verði kynnt á einfaldan og skiljanlegan hátt. Markhóparnir eru ólíkir og fræðslan mun taka mið af því.