Rafrænn ársfundur fyrir árið 2019

Ársfundur SÍMEY, vegna almanaksársins 2019, var haldinn í síðustu viku – nokkrum mánuðum síðar en áætlað var vegna kórónuveirufaraldursins. Fundinn átti að halda í apríl sl., eins og venja er til, en honum var þá frestað vegna fyrstu bylgju kórónuveirufaraldursins. En í síðustu viku var komið að því að halda ársfundinn og í fyrsta skipti frá stofnun SÍMEY var hann rafrænn.

Valgeir B. Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, segir að þrátt fyrir að fundurinn hafi verið rafrænn hafi hann verið ágætlega sóttur. „Fundurinn gekk ljómandi vel og í það heila sóttu hann 27 manns sem ég tel að sé vel viðunandi fundarsókn miðað við aðstæður,“ segir Valgeir. Ársskýrsla fyrir árið 2019 var tilbúin sl. vor, eins og til stóð og var á fundinum farið í gegnum nokkra hluti sem þar eru, m.a. ársreikninga.

Umræður á fundinum mótuðust eðlilega að töluverðu leyti af gjörbreyttu landslagi í samfélaginu vegna Covid 19. Fyrir liggur að atvinnuleysi hefur stóraukist vegna faraldursins og mun starfsemi SÍMEY á næstu mánuðum taka mið af því með m.a. námskeiðum fyrir atvinnuleitendur í samvinnu við Vinnumálastofnun.

„Á fundinum var töluvert rætt um hlutverk SÍMEY í þessum heimsfaraldri. Ég ræddi líka á fundinum, eins og oft áður, um fjórðu iðnbyltinguna og hlutverk framhaldsfræðslunnar í að mæta breytingum sem henni fylgja. Í þriðja lagi ræddum við um atvinnuástandið og það samstarf sem við eigum við m.a. Vinnumálastofnun um úrræði fyrir atvinnuleitendur. Það liggur fyrir að SÍMEY stendur fyrir um tveimur tugum námskeiða á þessari önn í samstarfi við Vinnumálastofnun sem við köllum Starfsleitarstofur. Þetta eru tólf tíma námskeið þar sem farið er í gegnum ýmsa hluti er lúta að atvinnuleit og gerð ferilskrár. Við bjóðum einnig upp á vefnámskeið í samstarfi við Vinnumálastofnun sem við köllum Betri skilningur – bætt samskipti. Hvert námskeið er á vefnum í þrjú skipti í og síðan er eftirfylgni í formi viðtala ráðgjafa hjá SÍMEY við hvern og einn þátttakanda á námskeiðunum. Vinnumálastofnun hefur samþykkt að allt að fjögur slík námskeið verði á þessari önn og það fyrsta hófst í dag,“ segir Valgeir.