Fjölbreytt myndverk

Níu nemendur voru í myndlistarsmiðjunni á vorönn 2022. Hér er eitt af akrílverkunum á nemendasýningu…
Níu nemendur voru í myndlistarsmiðjunni á vorönn 2022. Hér er eitt af akrílverkunum á nemendasýningunni sem fólki er velkomið að skoða í húsakynnum SÍMEY við Ársstíg.

Þessa dagana eru á veggjum húsnæðis SÍMEY við Ársstíg á Akureyri myndverk níu nemenda í myndlistarsmiðju sem Guðmundur Ármann Sigurjónsson, myndlistarmaður og kennari, hefur kennt á þessari önn.

Undanfarin ár hafa tveir af reyndustu myndlistarkennurum á Akureyri, Guðmundur Ármann og Bryndís Arnarsdóttir – Billa kennt myndlist á námskeiðum í SÍMEY. Námskeiðin hafa alltaf verið mjög vinsæl og færri hafa komist að en vilja.

Núna á vorönn hefur Guðmundur kennt níu nemendum á öllum aldrei eitt og annað í myndlist. Þetta var 80 klukkustunda nám og var víða komið við – t.d. vatnlitamálun, teikning og akrílmálun.

Guðmundur Ármann segir að nemendur á þessum námskeiðum séu á öllum aldri sem geri kennsluna mjög skemmtilega. Sumir þátttakendur hafi lengi verið að teikna og mála sér til ánægju og yndisauka og vilji með náminu bæta við sinn þekkingargrunn en einnig séu nemendur á framhaldsskólaaldri sem vilji með þessu bæta við einingar sínar og/eða búa sig undir frekara listnám.

Guðmundur hefur kennt myndlist í um hálfa öld, hann hóf kennsluna í byrjun áttunda áratugarins og hefur verið meira og minna að kenna síðan, m.a. í Myndlistaskólanum á Akureyri, á listnámsbraut VMA og í SÍMEY. Hann segist aldrei fá leið á því að kenna og njóti sín vel í því að miðla þekkingu sinni til fólks. Guðmundur hefur alla tíð, auk kennslunnar, verið afkastamikill myndlistarmaður og hann hefur lagt aukna áherslu á listsköpunina eftir að hann hætti að hafa kennslu að aðalstarfi. Starf myndlistarmannsins segir Guðmundur að geti í eðli sínu oft verið nokkuð einmanalegt og því þyki honum gott að brjóta hversdaginn upp með kennslunni, enda kunni hann því vel að starfa með öðru fólki.

Þessa dagana er Guðmundur Ármann önnum kafinn við að leggja lokahönd á olíumálverk sem hann mun sýna í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík undir lok þessa mánaðar. Sýningin verður opin í um mánuð.