Fimmtíu og fjórir brautskráðust

Fimmtíu og fjórir nemendur brautskráðust í dag af ýmsum námsbrautum.
Fimmtíu og fjórir nemendur brautskráðust í dag af ýmsum námsbrautum.

Fimmtíu og fjórir nemendur SÍMEY brautskráðust af ýmsum námsleiðum við hátíðlega athöfn í húsakynnum SÍMEY við Þórsstíg í dag.

Brautskráningarnemarnir hafa lokið námi í Skrifstofuskólanum, hönnunar og tilraunasmiðju FabLab, Skrefinu – þjálfunarnámskeiði í íslensku og Help Start enskunámi. Allar eru þessar námsleiðir vottaðar og viðurkenndar af Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.

Einnig brautskráðust í dag nemendur sem hafa setið 75 klukkustunda „Alvöru bókhaldsnámskeið“ í samvinnu við Tölvufræðsluna og þá tóku í dag 20 manns við skírteinum til staðfestingar á því að hafa lokið raunfærnimati, flestir í fisktækni.

Til viðbótar við þá 54 sem brautskráðust með formlegum hætti í dag hafa fjölmargir lokið ýmsum námskeiðum á haustönn og einnig stundað nám í fyrirtækjaskólum.

Valgeir Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, nefndi í ávarpi sínu við brautskráninguna í dag að á næsta ári fagni SÍMEY tuttugu ára afmæli sínu. Hann sagði að á þessum tveimur áratugum hafi starfsemin margfaldast, ekki síst hafi orðið sprenging í starfseminni í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008. Til marks um umfangsmikla starfsemi SÍMEY sagði Valgeir að á árinu 2018 hafi um 5400 manns nýtt sér þjónustu miðstöðvarinnar, sem er tæpur fjórðungur mannfjölda á Eyjafjarðarsvæðinu.

Valgeir nefndi að margir nemenda sem sæki sér þekkingu af ýmsum toga í SÍMEY geri það vegna þess að þeir vilji byrja á einhverju nýju eða skoða stöðu sína. „Eru kannski ekki endilega með ákveðið lokatakmark í huga en vita að þeir vilja eitthvað, kannski betra líf, betri líðan, meiri menntun, gera breytingar o.s.frv. Stundum koma einstaklingar fyrst í ráðgjöf eða bara á stutt námskeið, eru í námi á vinnustöðum en koma síðan í lengri námsleiðir og halda áfram eftir það, t.d. inn í hið formlega skólakerfi. Við teljum að okkar megin hlutverk sé að koma einstaklingum af stað, hvetja þá áfram og efla sjálfstraust þeirra. Með því teljum við okkur vera að bæta líf viðkomandi. Einnig er okkar hlutverk að mennta einstaklinga fyrir atvinnulífið.
Rétt eins og stofnendur SÍMEY vissu ekki hvernig miðstöðin yrði tuttugu árum síðar held ég að flestir sem útskrifast í dag hafi ekki vitað hvert það myndi leiða þá að hefja nám í SÍMEY og viti það jafnvel ekki enn, því ykkar ferðalag er rétt að byrja. Þetta er ein útskrift og ég giska á að flest ykkar eigi nokkrar útskriftir eftir. Því eins skrítið og það er þá kallar þekkingaröflun á enn frekari þekkingaröflun,“ sagði Valgeir.

Fyrir hönd brautskráningarnemenda flutti Laufey Harrysdóttir, sem var að ljúka námi úr Skrifstofuskólanum, ávarp.

Tónlistarhjónin frá Tjörn í Svarfaðardal, Kristján E. Hjartarson og Kristjana Arngrímsdóttir, fluttu nokkur lög við upphaf og lok brautskráningarathafnarinnar.

Við brautskráninguna gaf að líta nokkra hluti sem nemendur á FabLab námskeiðinu á önninni unnu.