Félagsliðar og fisktæknar brautskráðir

Félagsliðarnir sjö sem brautskráðust frá Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar í dag.
Félagsliðarnir sjö sem brautskráðust frá Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar í dag.

Sjö félagsliðar og þrír fisktæknar brautskráðust frá SÍMEY við hátíðlega athöfn í dag. Töluvert færri brautskráðust í þetta skipti en venja er að vori sem tengist aðstæðum í samfélaginu vegna Covid faraldursins.

Valgeir B. Magnússon framkvæmdastjóri SÍMEY sagði við brautskráninguna að SÍMEY hafi í um áratug boðið upp á brúarnám og hafi verið jöfn og góð aðsókn í bæði í félagsliða- og stuðningsfulltrúabrúarnámið. Margir nemendur hafi farið í námið að undangengnu raunfærnimati, það hafi hvatt fólk áfram og gefið því dýrmæta staðfestingu á þekkingu sinni. „Sama má segja um bæði raunfærnimat í fisktækni og fisktækninám. Þetta byrjaði sem hugmynd eða verkefni hjá okkur árið 2015 en viðbrögð og viðtökur voru framar öllum væntingum og nú fimm árum síðar erum við enn í þeim verkefnum. Stór hópur starfsmanna í sjávarútvegi hefur farið í gegnum þetta raunfærnimat sem og farið í framhald í gegnum nám í fisktækni hjá Fisktækniskóla Íslands. Hér í dag eru þrír einstaklingar sem hafa farið þessa leið og eru að útskrifast sem fisktæknar,“ sagði Valgeir.

Valgeir útskrifaði félagsliðana sjö en Klemenz Sæmundsson, kennari hjá Fisktækniskóla Íslands, útskrifaði fisktæknana þrjá.

Hinir nýútskrifuðu félagsliðar hafa stundað nám sitt síðustu tvo vetur í SÍMEY en fisktæknarnir hafa sótt nám sitt í Fisktækniskólanum í fjarnámi.