Fab Lab stafrænni smiðju í Eyjafirði komið á fót

Á meðfylgjandi mynd er nýkjörin stjórn FabEy
Á meðfylgjandi mynd er nýkjörin stjórn FabEy

Á næsta ári verður Fab Lab stafrænni smiðju í Eyjafirði ýtt úr vör og verður hún til húsa í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Fab Lab smiðjan er ætluð frumkvöðlum, nemendum, almenningi, fyrirtækjum og stofnunum.

Stofnfundur félagsins FabEy, hollvinafélags um stofnun og rekstur smiðjunnar, var haldinn á Akureyri í gær. Samþykktir FabEy staðfestu fulltrúar Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Verkmenntaskólans á Akureyri, Akureyrarbæjar og Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar.

Í stjórn FabEy voru kjörnir aðalmenn:

Sigríður Huld Jónsdóttir, aðstoðarskólameistari VMA, formaður, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, atvinnumálafulltrúi Akureyrarbæjar, Benedikt Barðason, áfangastjóri VMA, Erla Björg Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri SÍMEY og Sigurður Steingrímsson, verkefnisstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands á Akureyri.

 Í samþykktum fyrir FabEy kemur fram að með rekstri á stafrænni smiðju í Eyjafirði sé stefnt að því að auka þekkingu skólafólks og almennings á persónumiðaðri framleiðslu og stafrænum framleiðsluaðferðum, verkefninu sé ætlað að auka áhuga á verk- og tækninámi í grunn- og framhaldsskólum og efla hæfni til nýsköpunar í námi og atvinnulífi. Þá er einnig tilgreint það markmið með verkefninu að skapa vettvang fyrir nýsköpun og efla samkeppnishæfni fyrirtækja, menntastofnana og nemenda.

FabEy mun gera samstarfssamning við VMA um rekstur Fab Lab smiðjunnar. Stefnt er að því að ráða tvo starfsmenn að smiðjunni.

Auk Akureyrar hafa sveitarfélög við Eyjafjörð sýnt mikinn áhuga á verkefninu og mun FabEy gera sérstaka samninga við hvert og eitt sveitarfélag sem vill taka þátt. Nú þegar hafa Eyjafjarðarsveit og Hörgárbyggð ákveðið að koma að verkefninu. Auk þess hafa fagfélög við Eyjafjörð lofað stuðningi. 

Fab Lab stendur fyrir „Fabrication Laboratory“ og er alþjóðlegt net stafrænna smiðja með tækjum og tólum til að búa til nánast hvað sem er. Fab Lab gefur fólki á öllum aldri tækifæri til þess að þjálfa sköpunargáfuna og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni. Í Fab Lab smiðjum er tækjabúnaður af fullkomnustu gerð; fræsivél, vinylskeri, laserskeri, þrívíddarprentarar, rafeindaverkstæði til ýmiskonar tækjasmíða, rammar og efni til þess að þrykkja t.d. á boli, borðtölvur með uppsettum forritum o.fl.

Reynslan af Fab Lab smiðjunum sem þegar hefur verið komið á fót hér á landi sýnir að tæknilæsi og tæknifærni almennings eykst og þær hvetja ungt fólk til tæknimenntunar, sem mikil þörf er á, þær auka þekkingu á persónumiðaðri framleiðslu, stafrænum framleiðsluaðferðum í iðnaði og síðast en ekki síst eru Fab Lab smiðjurnar til þess fallnar að efla nýsköpun í landinu.

Eigandi Fab Lab vörumerkisins er Massachusetts Institute of Technology í Bandaríkjunum en Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur umsjón með verkefninu á Íslandi. Áhersla er lögð á samstarf Fab Lab smiðjanna á Íslandi og mynda þær samstarfsvettvang, „Fab Lab Ísland”, þar sem þekkingu og reynslu er miðlað milli þeirra. FabEy mun verða þátttakandi í þessu samstarfi