Er farin að trúa því að ég geti lært – ég veit að ég get lært!

Magnea Karen Svavarsdóttir.
Magnea Karen Svavarsdóttir.

Magnea Karen Svavarsdóttir er gott dæmi um nemanda sem námið í SÍMEY hefur orðið til að hvetja til dáða til frekara náms. Hún flutti eftirtektarvert ávarp við útskrift í SÍMEY í gær þar sem hún sagði sína sögu.

Magnea Karen býr á Akureyri, er gift þriggja barna móðir og á auk þess stjúpson. Hún er frá Hellu, þar sem hún var í grunnskóla. Námið í þá daga gekk ekki vel, trúlega vegna þess að Magnea Karen er lesblind, en hún fékk að heyra að hún væri „tossi og vitleysingur“ sem ekkert gæti lært. „Það samt stoppaði mig ekki í því að fara í Fjölbrautarskóla Suðurlands á Selfossi þar sem ég lærði nú samt ekki neitt, var aðallega í kossaflensi og keleríi  við strákana, enda hafði ég enga trú á að ég gæti lært. Nokkrum árum síðar fór ég í söðlasmíði á Selfossi, sem var mjög  áhugavert og gaman og mér gekk glimrandi vel. Um þessar mundir eru 10 ár frá því ég útskrifaðist úr Hússtjórnarskólanum á Hallormsstað með næsthæstu einkunn,“ rifjaði Magnea Karen upp og bætti við að hana hafi alltaf langað í frekara nám en aldrei komið sér í það. „Fyrir tveimur árum veiktist ég af krabbameini sem er búin að vera mjög erfið ganga og er að ná mér hægt og rólega af þeim veikindum. Síðan ég veiktist hef ég ekkert getað unnið. En til þess að nýta tímann á meðan ég er að ná heilsu á ný og líka til að koma mér út úr húsi ákvað ég að fara í skrifstofuskólann hér hjá SÍMEY. Að auki fór ég í enskunám í „Help – Start“ og er að klára 3. önnina í því námi. Þegar ég skráði mig í skrifstofuskólann var það ekki efst í huga mínum og reyndar hvergi í huganum að fara að halda ræðu hér við útskriftina okkar. En Helgi Svavarsson seldi mér þá hugmynd og ég skil  ekki af hverju ég keypti hana. En hann náði að draga mig langt út fyrir þægindarammann minn og hafði fulla trú á mér.  Og hingað er ég komin og er stolt af sjálfri mér, því ekki er ég mikið fyrir að halda ræður. Takk Helgi, fyrir að trúa mér fyrir þessu verkefni.“

Magnea Karen sagðist hafa farið í námið í SÍMEY til þess að auka möguleika sína á vinnumarkaði og ekki síst að auka möguleika sína að skipta um starfsvettvang, því vinnan sem hún hafi verið þar til hún greindist með krabbameinið hafi verið líkamlega krefjandi og vandséð að hún geti tekist á við slíka vinnu aftur. „Þegar ég byrjaði í skrifstofuskólanum, leið mér strax vel. Andrúmsloftið er gott, það er kósý að koma og manni líður vel. En svo byrjaði hópefli hjá Önnu Richards. Það var pínu spes til að byrja með og á köflum leið mér eins og kjána. Þegar ég átti að taka þátt í að semja nútímadansverk og vera í faðmlögum við konur sem ég hafði þekkt í hálftíma, fór ég að hugsa; hvert í fjandanum er ég komin? Þegar fyrsta skelfingin var yfirunnin var þetta bara gaman. Anna Richards náði að hrista okkur vel saman í byrjun og síðan höfum við ekki hætt að dansa og faðmast.
Námið hér hefur verið mjög skemmtilegt, áhugavert og gefandi og kennararnir frábærir. Hópurinn sem ég var með í náminu var æðislegur. Mikið búið að hlæja og það þurfti að sussa nokkrum sinnum á okkur Þetta voru allt saman konur á misjöfnum aldri. Þannig að við þessar ungu gátum alveg talað við gömlu kellurnar sem voru með okkur og getum það enn. Þetta hefur meira að segja gengið svo langt að við ætlum að halda áfram að hittast að þessu námi loknu.
Helgi Kristins hefur sýnt okkur alveg eindæma þolinmæði, sérstaklega þessum gömlu, náttúrlega. Nei, ég verð víst að viðurkenna að hann þurfti að sýna mér töluverða þolinmæði þar sem ég hélt því statt og stöðugt fram að tölvan mín væri eitthvað biluð því ég fékk yfirleitt ekki það sama á skjáinn og hinar, það var náttúrlega tölvan en ekki ég að gera einhverja vitleysu. Hann sagði oftar en einu sinni við mig: „Ég held að þú sért búin að slá heimsmet, því þetta á ekki að vera hægt að gera á tölvu.“ Samnemendur mínir skemmtu sér konunglega yfir þessari biluðu tölvu og sú sem sat við hliðina á mér alla tölvutímana hefur sjaldan skemmt sér svona vel í neinu námi. Hrefnu Óla tókst að gera verslunarreikning að skemmtilegu fagi og Guðlaug kenndi okkur á bókhaldið þannig að skattaskýrslan verður auðveld þetta árið. „Help Start“, þar sem Kristín Kolbeins hefur verið að stauta ofan í mann ensku, enska stafsetningu og framburð, hefur einnig verður skemmtilegt og þar er ég líka í góðum félagsskap.“

Magnea Karen sagði í lok ávarp síns að hún væri ekkert á þeim buxunum að hætta að læra, þó svo að áfanganum í gær væri náð. „Ég ætla að halda áfram í enskunni, langar að bæta við mig í skrifstofunáminu einhvern veginn og langar bara að gera alveg helling af allskonar. Ég á ábyggilega eftir að vera með annan fótinn hér í SÍMEY áfram einhvern tíma í viðbót. Ég er farin að trúa því að ég geti lært, ég veit að ég get lært,“ sagði Magnea Karen og þakkaði kennurum og samnemendum sínum fyrir samveruna um leið og hún óskaði viðstöddum gleðiríkrar jólhahátíðar.