Skemmtileg samverustund nemenda og kennara við utanverðan Eyjafjörð

Á fimmta tug nemenda og kennara á íslensku- og spænskunámskeiðunum hittust í samkomusal Menntaskólan…
Á fimmta tug nemenda og kennara á íslensku- og spænskunámskeiðunum hittust í samkomusal Menntaskólans á Tröllaskaga í Ólafsfirði sl. fimmtudag.

Það er ekki ofsögum sagt að mikil gleði hafi ríkt í Menntaskólanum á Tröllaskaga sl. fimmtudag, 28. nóvember, þegar nemendur og kennarar á íslensku- og spænskunámskeiðum SÍMEY á Dalvík og í Ólafsfirði hittust og áttu saman ánægjulega stund.

Sif Jóhannesdóttir, verkefnastjóri SÍMEY við utanverðan Eyjafjörð, segir að þessi skemmtilega samverustund hafi verið skipulögð með tiltölulega skömmum fyrirvara. Nemendur og kennarar hafi haft áhuga að koma saman í lok námskeiðanna og gera sér glaðan dag og Menntaskólinn á Tröllaskaga í Ólafsfirði hafi sýnt þann höfðingskap að láta hópnum í té samkomusal skólans.

Sif segir að mætingin hafi verið prýðileg, meirihluti þátttakenda á námskeiðunum hafi komið. Fólk lagði til mat á hlaðborð og var hann af ýmsum toga, enda eru þátttakendur á haustannarnámskeiðunum við utanverðan Eyjafjörð frá mörgum löndum. Við þetta tækifæri fengu þeir sem hafa lokið námskeiðunum á haustönn afhent staðfestingarskjöl um þátttökuna, brugðið var á leik með skemmtilegum samkvæmisleik og sýndur dans frá Filipseyjum.

Mikil ánægja var með þessa samverustund og var það samróma álit að þetta þyrfti að endurtaka – og raunar var ákveðið að næsta uppákoma af þessum toga verði á Dalvík á vorönn.

Á vorönn 2020 verður haldið áfram með íslensku- og spænskunámskeið á Dalvík og í Fjallabyggð sem hér segir:

Dalvík: Námskeiðið Skref í íslensku, sem hefur verið á haustönn, heldur áfram á vorönn, einnig verður boðið upp á framhaldsnámskeið í spænsku og íslensku 1., 2. og 3. stig.

Ólafsfjörður: Íslenska 2. stig

Siglufjörður: Byrjendanámskeið í spænsku.

Skráning er í fullum gangi á námskeiðin hér á heimasíðu SÍMEY.