Dragan Pavlica fyrirmynd í námi fullorðinna 2015

Dragan Pavlíca og Erla Björg Guðmundsdóttir.
Dragan Pavlíca og Erla Björg Guðmundsdóttir.

Undir lok nóvember var Dragan Pavlica, þjónustuliða í VMA, veitt viðurkenning á ársfundi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins sem „fyrirmynd 2015 í námi fullorðinna“. SÍMEY tilefndi Dragan til viðurkenningarinnar og var hann einn fjögurra einstaklinga sem fengu slíka viðurkenningu í ár, en hún er í formi heiðurs, hvatningar og spjaldtölvu. Dragan fór á sínum tíma í gegnum raunfærnimat hjá SÍMEY og settist þar síðan á skólabekk. Einnig tók hann verklegt nám í VMA og lauk málaraiðn. Nú hefur hann tekið upp þráðinn í náminu í meistaraskólanum og stefnir að því að ljúka honum innan tveggja ára. Dragan lýsti ferli sínum í náminu við útskrift í SÍMEY í dag. Þar kom m.a. fram að hann hefði í hyggju í framtíðinni að stofna eigið fyrirtæki í málaraiðn.

Dragan er 48 ára gamall Serbi en bjó í Króatíu þegar stríðið braust út í gömlu Júgóslavíu. Fjölskyldan neyddist til að yfirgefa heimili sitt og fékk skjól í flóttamannabúðum í Serbíu, þar sem hún dvaldi næstu átta ár.  Árið 2003 kom Dragan og fjölskylda (eiginkona, tveir synir og móðir) til Akureyrar í hópi 24 serbneskra flóttamanna, sem höfðu allir búið í Króatíu en flúið þaðan.  „Fljótlega eftir að við komum til Akureyrar fórum við að læra íslensku og það gekk bara nokkuð vel. Eftir eitt ár gat ég lesið aðeins og skrifað en mér fannst erfiðast að tala. Íslenskan er ekki lengur vandamál fyrir mig og konu mína, sem vinnur á elliheimilinu hér, og strákarnir okkar tala málið eins og innfæddir. Annar þeirra, sá yngri, er að ljúka stúdentsprófi frá VMA núna í desember. Móðir mín, sem er núna 67 ára gömul, talar ekki íslensku en hún skilur töluvert.“

Fljótlega eftir að Dragan og fjölskylda komu til Íslands árið 2003 fékk hann vinnu hjá Stefáni Jónssyni, málarameistara. Fimm árum síðar, árið 2008, benti Stefán honum á að nýta sér þjónustu Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar.  „Ég fór í gegnum raunfærnimat hjá SÍMEY og fór síðan að læra að verða málari. Tók bókleg fög hér í SÍMEY en verkleg fög í VMA. Úr þessu námi útskrifaðist ég með sveinspróf í málaraiðn. Ég hóf að vinna í VMA árið 2010 en síðar ákvað ég að halda áfram námi og er núna, auk daglegarar vinnu í VMA, að ljúka þriðju önn í meistaraskólanum í fjarnámi, til þess að verða málarameistari. „Mér finnst mjög gott að geta tekið meistaraskólann í fjarnámi. Auðvitað er þetta mikil vinna, mörg hugtök á ég ekki auðvelt með að skilja en þá leita ég bara aðstoðar og það hefur gengið vel,“ segir Dragan.

Hann segir að það hafi komið sér mjög á óvart þegar hann fékk upphringingu um að hann hefði verið útnefndur einn af fjórum fyrirmyndarnemendum 2015 í fullorðinsfræðslu. „Það kom mér skemmtilega á óvart en ég er að sjálfsögðu mjög ánægður með þetta,“ segir Dragan Pavlica.