Boðið upp á tvær námsleiðir á haustönn í samstarfi við Vinnumálastofnun

Núna á haustönn býður SÍMEY upp á tvær námsleiðir í samstarfi við Vinnumálastofnun - annars vegar St…
Núna á haustönn býður SÍMEY upp á tvær námsleiðir í samstarfi við Vinnumálastofnun - annars vegar Stökkpall og hins vegar Íslenska menningu og samfélag.

Núna á haustönn býður SÍMEY upp á tvær námsleiðir fyrir atvinnuleitendur í samstarfi við Vinnumálastofnun. Námsleiðirnar eru annars vegar Stökkpallur og hins vegar Íslensk menning og samfélag og byggja þær báðar á vottuðum námskrám frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.

Stökkpallur er hugsaður fyrir ungt fólk sem hefur horfið frá og/eða er án atvinnu. Í náminu, sem er 180 klukkustundir, er m.a. horft til sjálfskoðunar, markmiðasetningar, kynningar á vinnumarkaðnum o.fl. Boðið var upp á þetta nám í SÍMEY á vorönn og tókst það mjög vel. Uppbygging námsins nú tekur mið af þeirri góðu reynslu sem fékkst af því sl. vor. Um er að ræða staðnám og hefst það síðar í þessum mánuði.

Á vorönn bauð SÍMEY í fyrsta skipti upp á námsleiðina Íslensk menning og samfélag og var reynslan af henni mjög góð. Því var ákveðið að bjóða aftur upp á hana núna á haustönn.

Þessi námsleið er hugsuð fyrir fólk af erlendum uppruna til þess að auðvelda því að laga sig að íslensku samfélagi og vinnumarkaði. Lögð er áhersla á íslenskukennslu, að fræða þátttakendur um íslenska menningu, samfélagð og atvinnulífið auk þess sem undirstrkað er mikilvægi þess að byggja upp sjálfstraust og samskiptafærni.

Valgeir Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, segir að samstarf SíMEY við Vinnumálastofnun hafi verið mjög farsælt og ótvíræður árangur sé af því fyrir atvinnuleitendur. Reynslan hafi sýnt að þó svo að atvinnuleysi hafi minnkað á síðustu mánuðum séu enn hlutfallslega margir atvinnuleitendur annars vegar í hópi ungs fólks og hins vegar í hópi fólks af erlendum uppruna. Mikilvægt sé að koma til móts við báða þessa hópa með þessum hætti til þess að styðja þá og styrkja í atvinnuleit.

„Vert er að taka fram að SÍMEY er með samning við Vinnumálastofnun um ráðgjöf sem þýðir að atvinnuleitendur geta komið í viðtal til okkar til þess að fara yfir stöðu sína. Það er líka ástæða til þess að nefna að fyrir utan þessar námsleiðir fyrir atvinnuleitendur geta þeir sótt um styrki frá Vinnumálastofnun og stéttarfélögum til þess að sækja sér einhverja aðra fræðslu,“  segir Valgeir Magnússon.