Ársfundur SÍMEY 2022

Arna Jakobína Björnsdóttir, stjórnarformaður SÍMEY, og Valgeir Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, á …
Arna Jakobína Björnsdóttir, stjórnarformaður SÍMEY, og Valgeir Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, á ársfundinum í dag.

Starfsemi og rekstur SÍMEY á árinu 2021 markaðist mjög af kóvidfaraldrinum. Umfangið í t.d. námskeiðahaldi og raunfærnimati var vegna faraldursins ekki eins mikið og vonir stóðu til.

Þetta var meðal þess sem kom fram í máli Valgeirs Magnússonar, framkvæmdastjóra SÍMEY, á ársfundi miðstöðvarinnar í dag. Ársfundurinn var í húsnæði SÍMEY við Þórsstíg á Akureyri og var einnig sendur út rafrænt

Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður stjórnar SÍMEY, flutti skýrslu stjórnar í upphafi fundarins og sagði m.a. að í tengslum við breytingar á skipan ráðuneyta og í samstarfi við ráðuneyti félags- og vinnumarkaðar væru mikil tækifæri til að efla framhaldsfræðslukerfið og nýta þá styrkleika sem eru til staðar til að takast á við nýjar áskoranir. Til að slíkt kerfi geti þróast sagði Arna Jakobína að þyrfti stefnumörkun og að festa fjármögnun í sessi með langtímasamningum sem feli einnig í sér almennar verðlags- og vísitölubreytingar. Hún sagðist skynja jákvæðni í garð framhaldsfræðslunnar í hinu nýja ráðuneyti, sem væri mjög jákvætt.

Undir þetta tók Valgeir Magnússon í yfirliti sínu um starfsemi liðins árs. Hann upplýsti að í þessari viku hafi borist staðfesting frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu um tveggja ára samning ráðuneytisins við SÍMEY, sem væri ánægjuefni. Lengi hafi verið kallað eftir langtímafjármögnun fyrir framhaldsfræðsluna til þess að hún gæti skipulagt sig til lengri tíma og þetta væri ánægjulegt skref í þeim efnum.

Sem fyrr segir setti kóvidfaraldurinn mikið strik í reikninginn á liðnu ári og rekstrarniðurstaðan var í samræmi við það. Rekstrartekjur stofnunarinnar á síðasta ári námu 222 milljónum en voru kr. 215 milljónir árið 2020 og hækkuðu því um 3,2% á milli ára. Tap ársins nam  9,5 milljónum króna. Heildareignir námu í árslok 100 milljónum króna og eigið fé var rúmar 70 milljónir.

Valgeir segir að núna þegar faraldurinn sé að mestu genginn yfir rísi landið hratt og hann segist hafa miklar væntingar til þess að framundan séu mikil sóknartækifæri á ýmsum sviðum framhaldsfræðslunnar. 

Hér er ársskýrsla SÍMEY fyrir árið 2021.