Ánægjuleg heimsókn starfsfólks Símenntunarmiðstöðvarinnar á Vesturlandi í SÍMEY

Starfsfólk SÍMEY og Símenntunarmiðstöðvarinnar á Vesturlandi. Standandi frá vinstri: Kristín Björk G…
Starfsfólk SÍMEY og Símenntunarmiðstöðvarinnar á Vesturlandi. Standandi frá vinstri: Kristín Björk Gunnarsdóttir verkefnastjóri hjá SÍMEY, Sólveig Indriðadóttir náms- og starfsráðgjafi og verkefnastjóri hjá Símenntunarmiðstöðinni á Vesturlandi, Magnús Smári Snorrason verkefnastjóri hjá Símenntunarmiðstöðinni á Vesturlandi og Valgeir Magnússon framkvæmdastjóri SÍMEY. Sitjandi frá vinstri: Sigrún Björnsdóttir bókari hjá SÍMEY, Ingunn Helga Bjarnadóttir verkefnastjóri og ráðgjafi hjá SÍMEY, Sandra Sif Ragnarsdóttir verkefnastjóri og náms- og starfsráðgjafi hjá SÍMEY, Guðrún Vala Elísdóttir verkefnastjóri og náms- og starfsráðgjafi hjá Símenntunarmiðstöðinni á Vesturlandi, Inga Dóra Halldórsdóttir framkvæmdastjóri Símenntunarmiðstöðvarinnar á Vesturlandi og Helgi Þorbjörn Svavarsson verkefnastjóri og ráðgjafi hjá SÍMEY.

Símenntunarmiðstöðvar landsins, sem eru ellefu talsins, eiga með sér mjög gott samstarf á ýmsum sviðum. Áherslur miðstöðvanna eru að sumu leyti ólíkar sem helgast af mismunandi áherslum í atvinnulífi svæðanna en fjölmargt eiga þær sameiginlegt. Sameiginlegur vettvangur stöðvanna er Kvasir sem eru samtök fræðslu- og símenntunarmiðstöðva. Markmið þeirra eru að efla símenntun og framhaldsfræðslu á Íslandi og vinna að sameiginlegum hagsmunamálum símenntunarmiðstöðvanna.

Sem fyrr segir eiga símenntunarmiðstöðvarnar samstarf um ýmis verkefni og þær bera reglulega saman bækur sínar. Í liðinni viku komu fjórir starfsmenn Símenntunarmiðstöðvarinnar á Vesturlandi, sem er með höfuðstöðvar sínar í Borgarnesi, í heimsókn í SÍMEY og kynntu sér starfsemina og um leið miðluðu þeir til starfsfólks SÍMEY upplýsingum um ýmis áhugaverð verkefni sem framhaldsfræðslan á Vesturlandi er að fást við.

Slíkar heimsóknir starfsfólks símenntumarmiðstöðvanna eru afar gagnlegar og nýtast vel til að miðla upplýsingum og bera saman bækur.   

Starfsfólki Símenntunarmiðstöðvarinnar á Vesturlandi er þakkað fyrir ánægjulega heimsókn.