Áhugavert og spennandi

Sigurlaug Indriðadóttir Unnardóttir.
Sigurlaug Indriðadóttir Unnardóttir.

„Verkefnin í SÍMEY eru mjög spennandi og áhugaverð og starfið hér er umfangsmeira og fjölbreyttara en ég gerði mér grein fyrir,“ segir Sigurlaug Indriðadóttir Unnardóttir, sem hóf störf hjá SÍMEY sem verkefnastjóri/ráðgjafi fyrr í þessum mánuði.

Sigurlaug er Bakkfirðingur, frá bænum Miðfjarðarnesi á Langanesströnd. Að loknum grunnskóla í heimahögunum fór hún í Verkmenntaskólann á Akureyri og lauk þaðan stúdentsprófi af félagsfræðibraut árið 2009. Það var engin tilviljun að Sigurlaug fór þessa leið í framhaldsskóla því hún hafði þá þegar ákveðið að verða kennari.

Leiðin lá því í kennaradeildina í Háskólanum á Akureyri og þaðan lauk Sigurlaug meistaraprófi árið 2014. Bætti síðan við sig diplomagráðu í sérkennslufræðum við sama skóla. Í framhaldinu fór Sigurlaug árið 2017 að kenna í Naustaskóla á Akureyri og hefur starfað þar síðan að frátöldum nokkrum mánuðum sem hún kenndi íslensku sem annað mál í Brekkuskóla.

„Mér líkaði kennslan mjög vel en fannst líka mikilvægt að festast ekki of lengi í því sama og prófa eitthvað nýtt. Þegar ég sá þetta starf í SÍMEY auglýst fannst mér það strax áhugavert. Fjölmenningin hefur lengi heillað mig og ég hef átt þess kost að kynnast henni vel í íslenskukennslunni á grunnskólastiginu. Verkefnin í fullorðinsfræðslunni sem ég tekst á við hér í SÍMEY eru ekki síður áhugaverð,“ segir Sigurlaug.

Á hennar borði er m.a. umsjón með námskeiðum í íslensku sem öðru máli og einnig er hún með á sinni könnu að halda utan um starfsemi SÍMEY við utanverðan Eyjafjörð. SÍMEY er með námsver fyrir staðnám o.fl. í Víkurröst á Dalvík og einnig er námskeiðahald í Fjallabyggð, á Siglufirði og í Ólafsfirði. Að undanförnu hafa t.d. verið íslenskunámskeið SÍMEY á Siglufirði í húsakynnum stéttarfélagsins Einingar-Iðju.