Áframhaldandi vöxtur í starfsemi SÍMEY

Arna Jakobína Björnsdóttir, stjórnarformaður SÍMEY, flytur skýrslu stjórnar á ársfundi SÍMEY í dag.
Arna Jakobína Björnsdóttir, stjórnarformaður SÍMEY, flytur skýrslu stjórnar á ársfundi SÍMEY í dag.

Á árinu 2018 sóttu 4.639 manns námskeið á vegum SÍMEY og auk þess nýttu um 700 manns sér aðra þjónustu í tengslum við náms- og starfsráðgjöf, raunfærnimat o.fl. Þetta kom fram á ársfundi SÍMEY fyrir árið 2018, sem var haldinn í dag, 10. apríl, í húsakynnum SÍMEY við Þórsstíg. Sem fyrr eru konur í töluvert miklum meirihluta þeirra sem nýta sér þjónustu SÍMEY, nærri lætur að um 60% þátttakenda hafi verið konur og um 40% karlar. Þetta er þó ekki eins mikill kynjamunur og var árin á undan.

Valgeir Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, segir að starfsemi símenntunarmiðstöðva hafi tekið töluverðum breytingum og svo muni verða áfram. Hann nefnir sem dæmi að eftir efnahagshrunið hafi verið mikil aðsókn í nám á lengri námsbrautum en nú sé fyrst og fremst spurn eftir námi á styttri námsleiðum. Einnig hafi orðið mikill vöxtur í uppsetningu fyrirtækjaskóla í samstarfi við atvinnulífið, fræðslan hafi í auknum mæli færst frá því að vera síðdegis- og kvöldnámskeið í fyrirtækjaskóla á vinnustöðunum. Valgeir nefndi einnig vöxt í hæfnigreiningum, m.a. í ferðaþjónustu, og aukna áherslu á raunfærnimat.

Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður stjórnar SÍMEY, nefndi í ávarpi sínu að á næsta ári verði SÍMEY 20 ára. Á þessum tæpu tveimur áratugum hafi fjöldi starfsmanna margfaldast. Hún sagði að stærsta breytingin á starfseminni væri sú að aðsókn í bóklegt nám hafi minnkað en að sama skapi hafi verið vöxtur í starfstengdu námi, tækninámi og skapandi greinum.

Rekstrartekjur SÍMEY árið 2018 voru 234,5 milljónir króna en voru 229,2 milljónir króna árið 2017. Rekstrartekjur hækkuðu því um 2,3% milli ára. Hagnaður ársins var 4,5 milljónir króna en var 9 milljónir króna árið 2017. Heildareignir SÍMEY í árslok 2018 námu tæpum 148 milljónum króna og eigið fé var röskar 106 milljónir króna.

Aðalmenn í stjórn SÍMEY eru: Arna Jakobína Björnsdóttir, Sverrir Gestsson, Axel Grettisson, Halldór Óli Kjartansson, Halla Margrét Tryggvadóttir, Ingimar Eydal og Benedikt Barðarson. Í varastjórn eru: Anna María Kristinsdóttir, Anna Júlíusdóttir, María Albína Tryggvadóttir, Hjördís Sigursteinsdóttir, Hlynur Már Erlingsson og Erla Björnsdóttir.