Afar jákvætt mat þátttakenda á íslenskunámskeiðum

Ein af skemmtilegum nýjungum í íslenskukennslunni var heimsókn nemenda úr Menntaskólanum á Akureyri …
Ein af skemmtilegum nýjungum í íslenskukennslunni var heimsókn nemenda úr Menntaskólanum á Akureyri í mars sl. þar sem þeir ræddu við nemendur í íslensku sem öðru máli - undir formerkjum átaksis Gefum íslensku séns.

„Það kemur meðal annars skýrt fram í mati á námskeiðunum að þátttakendur eru mjög ánægðir með hvernig staðið er að kennslunni, tengsl nemenda og kennara og tengsl nemenda innbyrðis og hvernig námskeiðin hafi aukið hagnýtan orðaforða þátttakenda í íslensku,“ segir Sigurlaug Indriðadóttir Unnardóttir verkefnastjóri í SÍMEY.

Í lok hvers námskeiðs í íslensku sem annað tungumál meta nemendur hvernig til hafi tekist, hvernig staðið er að kennslunni, námsumhverfið í SÍMEY og margt fleira. Sigurlaug segir að í stuttu máli hafi mat nemenda á íslenskunámskeiðunum í vetur verið afar jákvætt og gefi til kynna að vel sé staðið að málum í íslenskukennslunni í SÍMEY.

Íslenskan hefur verið kennd í þremur þrepum eða getustigum og hafa námskeiðin almennt verið mjög vel sótt. Í það heila voru haldin um fimmtíu íslenskunámskeið í SÍMEY í vetur, á haust- og vorönn, bæði í stað- og fjarnámi. Hvert námskeið er 40 klukkustundir.

Þó svo að leitast sé við að íslenskan sé það tungumál sem oftast hljómi í kennslustundunum er það auðvitað svo að sérstaklega á byrjunarnámskeiðunum þarf að grípa til annarra tungumála til samskipta og útskýringar á ýmsum hlutum. Til að auðvelda nemendum námið hafa nokkur af  námskeiðunum verið kennd á búlgörsku, pólsku, arabísku, spænsku, rússnesku og tékknesku og segir Sigurlaug það hafa verið gæfu SÍMEY að hafa afar hæfa íslenskukennara sem tali þessi tungumál.

„Við höfum lagt áherslu á að auk sjálfrar íslenskukennslunnar séu þessi námskeið til þess fallin að opna dyr fólks inn í samfélagið, ef svo má segja. Bæði kennararnir og við starfsmenn SÍMEY leggjum áherslu á að aðstoða nemendur við eitt og annað, t.d. að fylla út atvinnuumsóknir og aðra tilfallandi ráðgjöf auk þess sem þeim er boðið upp á endurgjaldslausa tungumálamarkþjálfun. Því er óhætt að segja að auk íslenskunámsins leggjum við mikið upp úr persónulegri og einstaklingsmiðaðri þjónustu við þátttakendur á íslenskunámskeiðunum og við finnum að það er þeim mikils virði,“ segir Sigurlaug.

Ekkert bendir til þess að þörfin fyrir íslenskukennsluna minnki, þvert á móti. Stjórnvöld hafa á síðustu misserum gefið út að mikil þörf sé á að bæta í íslenskukennsluna á öllum skólastigum.

Í vetur var íslenskan sem fyrr segir kennd í þremur þrepum í SÍMEY en næsta haust segir Sigurlaug að ætlunin sé að bæta við fjórða og fimmta þrepinu. Slíkt hafi ekki verið lengi í boði í SÍMEY en nú sé nægilega mikil spurn eftir því frá nemendum sem vilja auka við þekkingu sína ofan á þá kunnáttu sem þeir hafa aflað sér á fyrsta, öðru og þriðja þrepi íslenskunámsins.