Nemendur í Fræðslu í formi og lit sýna verk sín í SÍMEY

Ein af myndum Ingibjargar Guðmundsdóttur á sýningunni í SÍMEY.
Ein af myndum Ingibjargar Guðmundsdóttur á sýningunni í SÍMEY.

Frá og með deginum í dag, fimmtudeginum 3. júní, er opin í SÍMEY sýning á verkum fimm nemenda í myndlistarnáminu Fræðsla í formi og lit, sem er yfirgripsmikið nám í myndlist. Nemendur hafa stundað námið í allan vetur undir leiðsögn tveggja þrautreyndra kennara og listamanna, Billu – Bryndísar Arnardóttur, sem kenndi á haustönn, og Guðmundar Ármanns Sigurjónssonar, sem kenndi á vorönn. Námið tók til fjögurra meginþátta; teikningar, málunar, formfræði og listasögu.

Nemendurnir fimm sem hafa stundað námið á báðum önnum og eiga verk á sýningunni í SÍMEY eru:

Eva Dögg Einarsdóttir
Hildur Elínar Sigurðardóttir
Ingibjörg Guðmundsdóttir
Jóhannes Axelsson
Ekaterina Shvetsova

Hildur Elínar Sigurðardóttir segir að námið hafi í senn verið fræðandi og mjög skemmtilegt og nemendahópurinn og kennararnir hafi notið samverunnar. „Við byrjuðum fleiri síðastliðið haust en m.a. vegna Covid fækkaði í nemendahópnum. Covid setti smá strik í reikninginn á haustönninni en við höfum getað haldið okkar striki núna á vorönn,“ segir Hildur en kennt var tvisvar í viku kl. 17-21. Hún segist ekki hafa teiknað eða málað mikið í gegnum tíðina og áður einungis farið á eitt námskeið í olíumálun. „Námið kom mér skemmtilega á óvart og ég get hiklaust mælt með því. Listasagan opnaði mér nýjan heim og ég uppgötvaði vatnslitamálun, sem mig langar til þess að leggja meiri rækt við,“ segir Hildur.

Sýning fimmmenninganna í SÍMEY verður opin næstu virka daga  (mánudag-fimmtudags) kl. 09:00-17:00.