Anna María Jónsdóttir ráðin verkefnastjóri í SÍMEY

Anna María Jónsdóttir.
Anna María Jónsdóttir.

Þann 1. febrúar sl. hóf Anna María Jónsdóttir störf sem verkefnastjóri í SÍMEY. Meðal verkefna sem hún hefur á sinni könnu eru vottaðar námsleiðir, raunfærnimat, fagbréf atvinnulífsins og nemendabókhaldskerfi.

Anna María er stúdent frá VMA árið 2002. Hún nam sjávarútvegsfræði í Háskólanum á Akureyri og brautskráðist úr því námi árið 2005. Síðan fór hún í kennsluréttindanám og lauk meistaraprófi í námskrár- og kennslufræðum frá HA árið 2013. Diplómunámi í opinberri stjórnsýslu í Háskóla Íslands lauk hún í febrúar 2023.

Frá haustinu 2014 hefur Anna María starfað í Verkmenntaskólanum á Akureyri þar sem hún hefur verið í fjölbreyttum verkefnum, m.a. starfað að gæðamálum, verið verkefnastjóri við nýja námskrá, var áfangastjóri í þrjú ár, aðstoðarskólameistari tvö skólaár og nú síðast sviðsstjóri verknámsbrauta skólans.

Anna María segir að nýtt starf í SÍMEY verði í senn fjölbreytt og áhugavert. Á hennar borði verði m.a. vottaðar námsleiðir sem séu almennar námskrár, m.a. ætlað að auðvelda fólki að hefja nám að nýju, og starfstengdar námskrár sem byggi á hæfnigreiningum starfa. Þar segir hún að séu mörg spennandi verkefni, t.d. námskrá í ferðaþjónustu og félagsliðanám og þá sé verið að prufukeyra nám fyrir starfsfólk íþróttamannvirkja og sundlauga.

Í störfum sínum í SÍMEY mun Anna María meðal annars koma að raunfærnimati og fagbréfum atvinnulífsins sem hún telur að feli í sér mikil og spennandi tækifæri fyrir fólk.  „Í raunfærnimati fer einstaklingur í gegnum matsferli sem staðfestir færni viðkomandi óháð því hvernig færni hefur verið aflað, þannig getur viðkomandi fengið alla reynslu og allt fyrra nám metið og e.t.v. fengið nám stytt eða aukið færni sína á vinnustað. Fagbréf atvinnulífsins byggja á starfaprófíl og samstarfi fyrirtækis og starfsfólks. Með því er mögulegt að meta færni einstaklings í ákveðið starf innan fyrirtækis eða þjálfa viðkomandi til að gegna starfinu,“ segir Anna María og hvetur öll til þess að kynna sér þá möguleika sem því bjóðist í SÍMEY.

Anna María segist hafa tamið sér undanfarin ár að segja ekki nei við tækifærum og breytingum og hræðast þær ekki. „Fyrir mig er þetta starf stórt tækifæri, hér tekst ég á við ný verkefni, sem ýta mér út fyrir þægindarammann. Öflugt samstarf er á milli fræðslu- og símenntunarmiðstöðva á landsvísu og ég hlakka til að stækka tengslanetið og kynnast fjölbreyttum hópi fólks. Í SÍMEY er gott að vera, góður andi í húsinu, hlýtt og heimilislegt og frábært samstarfsfólk og ég er full tilhlökkunar fyrir framhaldinu,“ segir Anna María Jónsdóttir.