Þjónustunámskeið fyrir ungt fólk

Flokkur: Stök námskeið

Þetta er fyrsta námskeiðið af þessari tegund á Akureyri og er sérsniðið að einstaklingum sem eru að stíga sín fyrstu skref í þjóninum, ýmist í hlutastarfi eða í fullu starfi á veitingahúsum í sal. Á námskeiðinu er farið yfir grunnatriðin í að þjóna til borðs, tæknileg atriði, framkomu við gesti og samstarfsfólk, grunntök í framreiðslu og réttindi starfsmanna í faginu. Einnig verður farið yfir grunnþekkingu á áfengi, bæði á bjór og sterk- og léttvíni. Farið verður yfir alla þá þætti sem þjónar læra á svokölluðum prufuvöktum og meira til.

Leiðbeinandi er Ingibjörg Bergmann Bragadóttir, framreiðslumeistari en hún hefur unnið á veitingahúsum á Akureyri, í Reykjavík og erlendis í tíu ár. Á þeim tíma hefur hún lokið sveinsprófi og meistararéttindum í faginu og unnið á veitingahúsum sem vaktstjóri og veitingastjóri þar sem hún hefur öðlast töluverða reynslu í að taka á móti og þjálfa upp nýliða í faginu.

„Mér finnst alveg ótrúlega mikilvægt að ungt fólk að stíga sín fyrstu skref í þjóninum fái betri fræðslu áður en þau byrja að vinna sem þjónar. Þetta er erfitt starf og það er margt að læra á stuttum tíma. Hvort sem þú ert að mæta á þína fyrstu vakt eða fjórðu þá er þetta oft stressandi og yfirþyrmandi í fyrstu, af því að það gafst ekki tími til að kenna þér nógu vel. Á þessu námskeiði vil ég kenna allt það sem þú átt að læra á fyrstu vöktunum þínum á veitingahúsi þannig að þú getur mætt vel undirbúin/n á þínar fyrstu vaktir,“ segir Ingibjörg.

Námskeiðinu er skipt í eftirfarandi liði:

- Þjóninn 
Hvað þýðir að vinna sem þjónn? Í hverju felst starfið? Hvernig er að starfa sem þjónn?

- Inngangur að þjónustu: 
Almennt um veitingahús og þjónustu. Mismunandi kröfur eru gerðar eftir stöðum en grunnurinn er alltaf sá sami; að veita sem besta þjónustu.

- Álag í starfinu 
Farið yfir alla þá erfiðu þætti sem fylgja starfinu. Hvernig á að taka á móti kvörtunum, erfiðum vöktum, stressið sem fylgir því að byrja að vinna sem þjónn o.s.fv. 

- Grunntök í framreiðslu – Verklegi hlutinn: 
Að halda á bakka, taka þrjá diska, fara hægra megin við gestinn og margar fleiri grunnreglur sem allir þurfa að vita fyrir sína fyrstu vakt á veitingahúsi. 

- Matur og drykkur 
Það er einstaklega mikilvægt í öllu þjónustu- og sölustarfi að vita hvað maður er að selja. Auðvitað er ekki gerð krafa að ungir þjónar að stíga sín fyrstu skref í starfinu viti allt en grunnþekking er nauðsynleg og þá amk að vita hvert á að leita ef maður veit ekki svarið. Farið verður yfir framreiðslu matar, framreiðslu drykkja ofl. í stuttu máli.

- Réttindi þjóna 
Að lokum verður farið yfir réttindi í starfinu er varðar pásur á vaktinni, laun, yfirvinnu, útköll o.fl.

 

Félagsmenn í stéttarfélaginu Eining Iðja hjá ríki og sveitarfélögum athugið! 

Starfsmenntasjóðirnir Sveitamennt og Ríkismennt greiða námskeiðsgjald vegna þátttöku almennra starfsmanna sveitarfélaga og ríkisins. Þetta á einnig við stofnanir ríkis og sveitarfélaga sem eru aðilar að Sveitamennt og Ríkismennt. 

 

 

Heiti námskeiðs Dags Dagar Tími Staðsetning Verð Skráning
Þetta fyrsta námskeið er sniðið að einstaklingum sem eru að stíga sín fyrstu skref í þjóninum, ýmist í hlutastarfi á kvöldin eða í fullu starfi á veitingahúsum í sal. 02. apr Fimmtudagur 17.00 - 21.00 SÍMEY 18.000 kr. Skráning