Heimur fornleifafræðinnar

Flokkur: námskeið

Á þessu þrískipta námskeiði verður fjallað um fornleifafræði, starf fornleifafræðinga og fornleifarannsóknir í Svarfaðardal. Starf fornleifafræðinga er í augum almennings gjarnan hjúpað dulúð, þar sem Indiana Jones, fjársjóðir og múrskeiðar koma við sögu. Eru störf íslenskra fornleifafræðinga í takt við þessa ímynd eða eru föðurlandið og skóflan mikilvægari þáttur í þeirra vinnudegi?

Fyrir þá sem hafa áhuga á fornleifum, sögu og menningu liðinna tíma er áhugvert að skyggnast inn í þennan heim og átta sig á hvernig lesa má í minjar bæði ofan jarðar og neðan.

 8. júní

Lilja Pálsdóttir fjallar um starf fornleifafræðinga og þær aðferðir sem fornleifafræðingar nota til að lesa í fortíðina. Stiklað verður á stóru um eðli og tilgang fornleifaskráningar og fjallað um helstu aðferðir fornleifafræðinga við fornleifauppgröft. Skoðað verður hvernig þeir lesa í mannvistar- og gjóskulög í jörðu og hvernig unnið er úr gögnum, gripum og beinum og þau túlkuð til að skilja lífsskilyrði og menningu fyrri alda.

22. júní
Elín Ósk Hreiðarsdóttir fer yfir þær fornleifarannsóknir sem unnar hafa verið í Svarfaðardal og setur þær í samhengi. Í dalnum eru mjög áhugaverð minjasvæði og þar hafa í gegnum tíðina verið gerðar ýmsar rannsóknir. Einnig ræðir Elín um þær rannsóknir sem fyrirhugaðar eru í Svarfaðardal í sumar.

6. júlí
Síðasti tími námskeiðsins er heimsókn á vettvang fornleifarannsókna í Svarfaðardal í sumar þar sem fornleifafræðingar kynna rannsóknir sumarsins og helstu niðurstöður. Ekki hefur verið valinn áfangastaður, val á honum mun ráðast af því hvar fornleifafræðingar verða staddir við sína vinnu og því hverju rannsóknir sumarsins skila.
Vettvangsverðin verður farin í samstarfi við Ferðafélag Svarfdæla. Fyrirkomulag verður kynnt betur á námskeiðinu.

Leiðbeinendur á námskeiðinu
Elín Ósk er deildarstjóri fornleifa- og húsaskráningardeildar hjá Fornleifastofnun Íslands. Elín hefur unnið við fornleifaskráningu, húsaskráningu og ýmis uppgraftarverkefni og hefur m.a. stundað ýmsar rannsóknir í Svarfaðardal á síðustu árum.
Lilja er fornleifafræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands. Lilja hefur unnið við fornleifarannsóknir víða um land, sinnt björgunaruppgreftri á Gufuskálum grafið fornaldarhelli á Odda auk þess að grafa upp minjar á Gásum og í forngarða í Svarfaðardal.

Námskeiðið er samstarfsverkefni Fornleifastofnunar Íslands, Rannsóknarverkefnisins Tvídælu (Two Valleys), Sögufélags Svarfdæla, menningarstofnana í Dalvíkurbyggð, Ferðafélags Svarfdæla og SÍMEY.

Heiti námskeiðs Dags Dagar Tími Staðsetning Verð Skráning