Mikilvægt að stilla saman strengi mismunandi skólastiga

Fulltrúar í pallborðsumræðum.
Fulltrúar í pallborðsumræðum.

Að loknum ársfundi SÍMEY í gær, 15. maí, flutti Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, erindi með yfirskriftinni „Fyrirtækið sem námsstaður“. Að því loknu voru pallborðsumræður þar sem Sveinn sat ásamt fulltrúum mismunandi skólastiga. Yfirskrift pallborðsins var „Fræðslustigin tala saman um nám til eflingar atvinnulífinu“. Kristján Þór Júlíusson, menntamálaráðherra, hlýddi á pallborðsumræðurnar og ávarpaði viðstadda.

Sveinn Aðalsteinsson hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins í tæpt ár en við því tók hann 1. júní 2016 af Ingibjörgu E. Guðmundsdóttur sem hafði verið framkvæmdastjóri frá stofnun Fræðslumiðstöðvarinnar en lét af störfum fyrir aldurs sakir. Áður hafði Sveinn verið framkvæmdastjóri fræðslusjóðsins Starfsafls, starfsmenntar Flóabandalagsins og Samtaka atvinnulífsins, frá árinu 2006. Í því starfi vann hann m.a. að uppbyggingu og framkvæmd verkefnisins "Fræðslustjóri að láni" og og jafnframt var hann verkefnisstjóri sameiginlegrar vefgáttar fræðslusjóða, Áttin.is. Áður en Sveinn kom til Starfsafls var hann skólameistari Garðyrkjuskólans á Reykjum (síðar Landbúnaðarháskóla Íslands) frá 1999 til 2005.

Í erindi sínu kynnti Sveinn starfsemi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins en hún var sett á stofn árið 2002 af Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins. Fræðslumiðstöðin starfar náið með símenntunarmiðstöðvunum um allt land og eins og Sveinn orðaði það býr hún til verkfæri fyrir þær er lýtur að námsskrám, náms- og starfsráðgjöf og raunfærnimati. Sveinn tók þannig til orða að fyrirtækin í landinu væru risi sem þyrfti að virkja betur í fræðslu sinna starfsmanna. Hann sagði að víða væri margt vel gert í atvinnulífinu í þessum efnum en átaks væri þörf til að gera enn betur. Áskorunin sem þeir sem ynnu að fræðslumálum væri að gera fyrirtækin meðvituð um fræðsluhlutverk sitt gagn sínum starfsmönnum. Sveinn nefndi að í ljósi mikils vaxtar í ferðaþjónustunni á síðustu misserum og árum væri töluverð áhersla á fræðslumál í ferðaþjónustu og þar væri mikið óunnið og mörg sóknarfæri.

Sem fyrr segir var Sveinn í pallborði að loknu erindi sínu en þar voru einnig Jón Baldvin Hannesson, skólastjóri Giljaskóla á Akureyri, Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA, Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri og Valgeir B. Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY. Stjórnandi pallborðsumræðna var Svanfríður Inga Jónasdóttir, verkefnastjóri SÍMEY við utanverðan Eyjafjörð. Rauður þráður í máli þátttakenda í pallborði var að margt í núverandi skólakerfi þarfnaðist nýrrar sýnar og uppstokkunar og hvatt var til þess að skólastigin myndu í auknum mæli tala saman og samræma hlutina. Í því fælust mikil sóknarfæri og taldi Eyjólfur rektor HA að með því að auka samtal og samræmingu skólastiganna í Eyjafirði væri svæðinu mögulegt að taka ákveðið frumkvæði og skipa sér í forystusveit í þessum efnum í landinu. Taldi Eyjólfur til mikils vinnandi að ná slíku fram og allar forsendur væru til þess að það væri unnt.

Kristján Þór Júlíusson, menntamálaráðherra, sagðist lengi hafa fylgst með starfsemi SÍMEY og fullorðinsfræðslu almennt. Hann tók undir og hvatti til þess að skólastigin töluðu saman þannig að verkefnaskipting þeirra væri öllum ljós og skýr.