Fótbolti án fordóma á Akureyri

Fyrsta æfingin í sumar verður miðvikudaginn 31. maí kl. 19:00 á grasvellinum á KA-svæðinu.
Fyrsta æfingin í sumar verður miðvikudaginn 31. maí kl. 19:00 á grasvellinum á KA-svæðinu.

Síðastliðið sumar hafði SÍMEY forgöngu um að boðið var í fyrsta skipti á Akureyri upp á knattspyrnuæfingar fyrir fólk sem á eða hefur átt við geðræn vandamál að stríða. Björk Nóadóttir, þjálfari og knattspyrnukona, annaðist þjálfunina. Nú hefur verið ákveðið að endurtaka leikinn og verður fyrsta æfingin í sumar að rúmri viku liðinni, miðvikudaginn 31. maí kl. 19:00 á grasvellinum á KA-svæðinu – sunnan KA-heimilisins. Þjálfarar verða Björk Nóadóttir og Haukur Snær Baldursson. Knattspyrnuæfingarnar eru þátttakendum að kostnaðarlausu. Því er um að gera að nýta þetta frábæra tækifæri og æfa knattspyrnu í sumar undir stjórn afbragðs góðra þjálfara.

Á fésbókarsíðu verkefnisins „Fótbolti án fordóma á Akureyri“ kemur fram að markmiðið með knattspyrnuæfingunum sé að hafa gaman, bæta heilsu, virkja fólk félagslega og draga úr fordómum. Tekið er fram að allir séu velkomnir á æfingarnar, engar kröfur séu um þátttöku, þeim sem ekki treysti sér inn á völlinn sé velkomið að mæta á staðinn, horfa á og hafa gaman.