Vel heppnuð fyrsta opna textílsmiðjan - næsta textílsmiðja hefst í september

Fyrsta opna textílsmiðjan gekk mjög vel og verður annað námskeið næsta haust - hefst nánar til tekið…
Fyrsta opna textílsmiðjan gekk mjög vel og verður annað námskeið næsta haust - hefst nánar til tekið í september.

Síðastliðið þriðjudagskvöld var síðasta samverustundin í opinni textílsmiðju – námskeiði sem Soffía Margrét Hafþórsdóttir fatahönnuður og Kristín Þöll Þórsdóttir klæðskeri hafa í fyrsta skipti kennt núna á vormisseri. Þær eru sammála um að vel hafi tekist til og eru ágætlega sáttar með útkomuna. Reynslan af þessu námskeiði hefur verið svo góð að ákveðið hefur verið að endurtaka leikinn næsta haust og er nú þegar hægt að skrá sig á það námskeið, sem hefst í byrjun september og verður í það heila 80 klst.

Sem fyrr segir lauk þessari fyrstu opnu smiðju í textíl í SÍMEY sl. þriðjudagskvöld. Þá voru mættar fjórar af tíu konum sem sóttu námskeiðið. Það fór ekki á milli mála að þær voru allar hæstánægðar með námskeiðið og sögðust hafa lært margt og mikið og nokkrar af þeim glæsilegu flíkum sem urðu til á námskeiðinu vitna um það.  Soffía og Kristín kenndu m.a. sauma, þrykk, sníðagerð, efnisfræði og hugmynda- og hönnunarvinnu að því ógleymdu að farið var í heimsókn í hina nýju Fab-Lab smiðju í Verkmenntaskólanum á Akureyri

Soffía og Kristín hafa áður starfað saman því þær deildu um tíma vinnustofu í Gilinu og héldu þá tólf tíma námskeið. Reynslu sína og kunnáttu nýttu þær í opnu textílsmiðjuna í SÍMEY. Sem fyrr segir verður önnur sambærileg smiðja í haust og er ástæða til að hvetja þá sem hyggjast fara í hana að geyma ekki að skrá sig. Fyrstir koma - fyrstir fá!