Aníta Jónsdóttir nýr náms- og starfsráðgjafi hjá SÍMEY

Aníta Jónsdóttir.
Aníta Jónsdóttir.

Aníta Jónsdóttir hefur tekið til starfa sem náms- og starfsráðgjafi/ verkefnastjóri í SÍMEY.

Hún hefur undanfarin tuttugu ár verið grunnskólakennari í Dalvíkurskóla, Hrafnagilsskóla og Naustaskóla á Akureyri.

„Ég lauk kennaranámi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1995 og er því eins og sagt er; meðal íslenski kennarinn, 47 ára gömul kona! Ég hef kennt án uppihalds í þennan tíma að einu ári undanskildu þegar ég fór veturinn 1999-2000 í diplómanám í náms- og starfsráðgjöf í Háskóla Íslands.“

Aníta er fædd og uppalin á Selfossi en málin æxluðust þannig að hún fór norður til Dalvíkur og hóf að kenna þar 1997. Þetta var mikill snjóavetur og Sunnlendingurinn Aníta hafði aldrei séð annað eins. Fannfergið dró þó ekki úr henni kjarkinn og hún kenndi á Dalvík í tvo vetur en síðan lá leiðin inn í Eyjafjarðarsveit þar sem hún kenndi við Hrafnagilsskóla og síðustu ár hefur Aníta verið við kennslu í Naustaskóla á Akureyri.

„Síðastliðið vor tók ég þá ákvörðun að hvíla mig á kennslunni – án þess þó að hafa tryggt mér annað starf. Ég sá síðan þetta starf hjá SÍMEY auglýst, sótti um og mín var gæfan að fá það. Ég hef lengi horft til starfs Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar og einnig hefur lengi blundað í mér að vinna sem náms- og starfsráðgjafi með fullorðnu fólki. Þarna kom tækifærið upp í hendurnar á mér og mér líkar mjög vel að starfa hér.  Á hverjum degi tekst ég á við nýja hluti sem er í senn gefandi og þroskandi. Starfið er víðfeðmt, allt frá einstaklingsráðgjöf í að skipuleggja námskeið fyrir vinnustaði. Eitt af þeim verkefnum sem ég kem til með að vinna með er raunfærnimat sem mér þykir frábært „verkfæri“.“

Aníta hefur í gegnum tíðina kennt ýmislegt en rauði þráðurinn hefur þó verið annars vegar íslenska og hins vegar kristinfræði. „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á íslensku en hafði ekki bakgrunn í kristinfræðinni að öðru leyti en því að frá unglingsaldri tók ég þátt í kirkjustarfi á Selfossi. Þegar ég síðan var í námi í náms- og starfsráðgjöf var ég beðin um að vera þann vetur meðhjálpari í Selfosskirkju. Það var skemmtileg reynsla og og núna starfa ég sem einn af meðhjálpurum Glerárkirkju hér á Akureyri og einnig er ég meðhjálpari í Munkaþverárkirkju.“

Undanfarin ár hefur Aníta kennt námskeið sem kallast „Jákvæður agi“ – bæði fyrir kennara og foreldra. „Í tengslum við þetta námskeið kviknaði áhugi minn á foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf og  meðfram vinnu hef ég stundað meistaranám í þessum fræðum í Háskóla Íslands. Ég ákvað hins vegar að taka mér frí frá náminu á þessari önn á meðan ég væri að komast inn í nýtt starf hér í SÍMEY,“ segir Aníta Jónsdóttir.